146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir jómfrúrræðu hans, en biðst afsökunar, það er víst hefð að koma ekki í andsvör við jómfrúrræður, ég biðst því innilega afsökunar á því. En aðallega kem ég hingað til að hrósa honum fyrir ræðuna og þakka kærlega fyrir hana.

Ég hef svona almenna athugasemd því að ræðan vakti mikinn áhuga minn. Það er rétt að við erum mjög hátt á lista varðandi skattheimtu með tilliti til vergrar landsframleiðslu — ég var úti á nefndasviði áðan og þar sá ég hluta af glærunum — og sá að hún var í kringum 35%. Þar er bankaskattur inni í og annað sem er flókið. En þetta var í kringum annað sætið meira að segja. Það voru kannski aðeins nýrri tölur, ég veit það ekki.

Það er líka áhugavert að huga að þessum tölum með tilliti til þess að við erum tiltölulega hátt í meðaltali í framleiðslu per haus í tilviki OECD-ríkja. Athugasemd mín, eða „observation“, afsakið slettuna, er að mér finnst áhugavert að við séum undir meðaltali í ýmsum málaflokkum, t.d. með tilliti til framlaga til menntamála þegar við erum með þetta háa skattinnheimtu og þetta mikla framleiðslu en náum ekki framlögunum. Það virðist vera skemmtilegur, eða öllu heldur leiðinlegur, misbrestur á því hvernig við náum inn tekjum og hvernig við skilum þeim út. Með tilliti til þessarar áhugaverðu ræðu hefði ég áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á þessu misræmi varðandi tölur þar.