146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Já, takk fyrir athyglisverða spurningu. Þetta er að einhverju leyti rétt. — Ég hef tekið eftir því að það er hefð hérna í salnum að maður talar í andsvörum þangað til einhver innbyggð tölva hefur ákveðið að það sé komið svar og þá byrjar þessi takki að blikka. Eða ég hef séð fyrir mér að þetta virkaði þannig, ég ætla því að sjá hvort þetta gangi ekki jafn mikið yfir mig [Hlátrasköll í þingsal.] og aðra.

Það er vissulega rétt að við erum há í heildarskatttekjum sem fær mig almennt til að hugsa að við gætum þá vissulega forgangsraðað tekjunum með einhverjum öðrum hætti. Framlög okkar til menntamála eru auðvitað dálítið ólík eftir hinum og þessum sviðum. Menntakerfið, grunnskólakerfið, framhaldsskólakerfið er kannski tiltölulega dýrt vegna þess að við höfum haft þar lengra nám en annars. En ég verð að segja að ég hef ekki alveg tölurnar hérna fyrir framan mig um þessa innbyrðis skiptingu. Ég treysti mér ekki algerlega núna á þessari stundu til að lýsa því yfir hvar ég mundi vilja skera niður og skipta kökunni með einhverjum öðrum hætti. En það hlýtur að koma að því að það verði gert.