146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir góða og hvetjandi ræðu. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að því hvort það skjóti ekki skökku við að horfa á fjárlagafrumvarpið og þessi útgjöld miðað við þörfina. Nú hafa forsvarsmenn fráfarandi ríkisstjórnar sagst vera með fjárlög í blússandi plús, það sé mikil hagsæld. En á sama tíma þegar horft er yfir tölurnar virðist ráðdeildin eiga að vera þannig að það eigi að svelta heimilismenn til að geta borgað niður lánin á húsinu. Mig langaði að spyrja þingmanninn að því hvort það séu einhverjar aðrar leiðir, hvaða aðrar leiðir helst væri skynsamlegt að fara til að heimilismennirnir, íslenska þjóðin, svelti ekki á næsta ári. Það er ljóst að ekki er hægt að reka heilbrigðiskerfið, menntakerfið, líka Landhelgisgæsluna, löggæsluna, á þann veg sem fólk ætlast til, fólk ætlast til að við höfum okkar sameiginlegu kerfi þar sem allir eiga að njóta sömu réttinda. Manni finnst svolítið skrýtið þegar maður hlustar á þá sem styðja þessi fjárlög, sem eru Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn, að fyrir kosningar var einmitt lofað að bregðast við ákalli 86 þúsund Íslendinga um að endurreisa heilbrigðiskerfið en svo sér maður þess engin merki. Svo vantar líka að fjármagna stóra liði.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður fái á tilfinninguna að það sé innbyggður óheiðarleiki þegar lagt er fram svona fjárlagafrumvarp. Mér finnst þetta svo skringilegt og svo erfitt að útskýra þetta. Af hverju erum við með fjárlög sem eiga að líta út fyrir að vera í blússandi plús sem eru svo í blússandi mínus?