146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka fyrir svarið. Eitt af því sem maður hefur hoggið eftir er að samkvæmt alþjóðakvörðum teljumst við vera rík þjóð. Við erum fámenn þjóð sem hefur aðgengi að gríðarlega miklum auðlindum. Það hefur einhvern veginn þróast þannig að þessar sameiginlegu auðlindir okkar, hagnaðurinn af þeim, hefur ekki skilað sér nægilega vel í þjóðarbúið. Nú er ljóst í allri þessari umræðu að við munum ekki ná miklu í ríkiskassann því að við komum það seint inn. Við erum að ræða um fjárlög og það er ekki hægt að gera miklar breytingar, t.d. ef einhver vildi hækka veiðileyfagjöld eða breyta sjávarútvegskerfinu þannig að við myndum njóta betur þessa sameiginlega auðs. Væri gagnlegt í umræðunum að við töluðum meira út frá því sem er framkvæmanlegt núna og hvað fólk ætlar sér að gera á næstu árum? Það skortir oft langtímasýn í umræðunni. Hér getum við t.d. ekki talað um hvernig væri hægt að setja í þessi fjárlög það sem lýtur að næsta fiskveiðiári því að það hófst áður en frumvarpið var lagt fram. Það eru að sjálfsögðu alls konar möguleikar á t.d. að innheimta gjöld eins og gistináttagjald, komugjöld, bílastæðagjöld o.s.frv. En er samt ekki svolítið mikilvægt að ætla sér ekki að taka allt í einu þannig að þeir sem eru að byggja upp í ferðaþjónustunni upplifi ekki að þeir séu búnir að fjárfesta og lendi svo í því að það er tekið svo mikið að þeir geti ekki haldið rekstri áfram? Er ekki rosalega mikilvægt í svona umræðu að hafa ákveðið jafnvægi og hugsa til lengri tíma?