146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú ræðum við frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Þar eru ýmsir áhugaverðir kaflar sem tengjast náttúrlega frumvarpi til fjárlaga beint. Í umræðunum hefur áður verið minnst á þann afgang sem fjárlög skila þetta árið. Sífellt er minnst á ófjármagnaða liði sem ekki birtast í frumvarpinu. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að það sé þá ekki í plús. Við erum í mínus, ef liðirnir koma inn erum við tvímælalaust í mínus, ekki nema við hendum þeim burt. Þetta eru ýmsir liðir sem þingið hefur þegar samþykkt, eins og samgönguáætlun, þannig að við erum í mínus. Við þurfum að fjármagna þessa liði á næstunni. Þetta finnst mér mjög athyglisvert með tilliti til þess að í lögum um opinber fjármál, fjármálaáætlun fylgir því, kemur fram að hið opinbera á að skila 1% á næstu árum í afgang til þess að komast niður fyrir skuldaþak. Þess vegna er afgangnum stillt upp sem þessari upphæð. Ég veit ekki hvort það hefur áhrif á það hvaða liðir komast inn í fjárlagafrumvarpið eða ekki. Mér finnst það alla vega áhugavert.

Með tilliti til þess og þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað um kosningarnar og þau útgjöld sem flokkarnir börðust fyrir í kosningabaráttunni finnst mér athyglisvert að ekki sé í raun gert ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga sem fráfarandi þing skilur eftir sig. Eftir því sem ég best veit er þetta gert t.d. í Danmörku þar sem þau vita að þau hafa 2%, ég veit ekki alveg af hvaða hlutfalli, hvort það er af vergri landsframleiðslu eða af fjárlögum, sem verða til framkvæmda á komandi kjörtímabili eða strax á komandi þingi. Það er eitthvað sem við ættum kannski að bæta í lögum okkar um opinber fjármál á þessu þingi. Við erum í þeirri athyglisverðu aðstöðu núna að þingið ræður.

Í þessu frumvarpi til laga eru ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017 og er m.a. annars fjallað um hækkun útvarpsgjalds, Framkvæmdasjóð aldraðra og fleiri liði sem er verið að hækka með tilliti til verðlags. Þeir liðir, eins og hefur verið bent á, hafa bein áhrif á vísitöluna. Hv. þm. Sigríður Á. Andersen benti á að það væri 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs. Hækkunin á olíugjaldinu er til þess að mæta hækkun verðlags sem veldur þá hækkun aftur. Það er ákveðið „positive feedback loop“, eins og það heitir á ensku, ég kann ekki alveg nákvæmt orðalag yfir það á íslensku, kannski jákvæð endurkvæm hringrás. Ég hef sérstakan áhuga á útvarpsgjöldunum og gjöldum um Framkvæmdasjóð aldraðra því að þau gjöld koma inn sem einskiptisgreiðsla þegar við gerum upp skattana okkar . Ég veit það persónulega að það er ekkert rosalega auðvelt að greiða 10–30 þús. kr. þann mánuðinn fyrir fólk sem hefur ekki háar tekjur. Þetta er verulega stór biti af mánaðarlegum útgjöldum hjá mjög mörgum. Það eru ekki allir, sérstaklega ekki þeir sem lifa á mánaðarlegum tekjum, mánuð fyrir mánuð, sem geta gert ráðstafanir vegna þessara einskiptisútgjalda allt árið. Mér finnst það áhugavert t.d. með tilliti til sóknargjalda. Af hverju eru sóknargjöld ekki nákvæmlega eins? Ég hef á tilfinningunni að þetta hafi verið lagt á til þess að fólk fyndi fyrir útvarpsgjaldinu sem var kannski óvinsælt gjald hjá einhverjum stjórnmálaflokkum. Ég veit ekki með Framkvæmdasjóð aldraðra, ég skil ekki af hverju hann er sér á báti. Helst vildi ég að þetta hlutfall væri inni í skattprósentunni eins og t.d. sóknargjöld, eða að sóknargjaldið hyrfi alveg.

Hér áðan var minnst á svokallaða syndaskatta. Mig langar að minnast á þá. Að sjálfsögðu er ákveðinn kostnaður við t.d. áfengi og olíu sem leggst á samfélagið. Við sem samfélag þurfum að bregðast við og ríkissjóður er til þess, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir benti á, að þjóna okkur öllum. Við þurfum að greiða saman þann kostnað sem leggst á vegna þeirra atriða sem eru skattlögð. Ég sé þetta ekki sem syndaskatta, ég sé þetta sem kostnaðarskatta. Mér finnst áhugavert að heyra mismunandi sjónarmið um hvað skuli kalla þá. Ef það á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum finnst mér kostnaðarskattur vera réttnefni.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ályktuðu um gistináttagjald, sem er talað um í þessu frumvarpi að verði hækkað úr 100 í 300 krónur. Þeim fannst eðlilegt, og einnig okkur Pírötum, að sveitarfélög fengju hlutfall af gistináttagjaldinu til uppbyggingar innan sinna svæða. Þar er einnig ályktað að sveitarfélög fái hlutdeild eða ákveðið útsvar af virðisaukaskatti, sem mér finnst mjög áhugavert. Það er ákveðinn hvati til uppbyggingar á öðruvísi atvinnustarfsemi en sveitarfélögin hafa tekjur af. Sveitarfélög hafa aðallega tekjur af fasteignasköttum og útsvari einstaklinga. Allri annarri starfsemi sem getur ekki af sér slíkar tekjur er í raun ábótavant í samfélaginu innan sveitarfélaga. Þessi fyrirtæki greiða öll skatt beint til ríkis og leggja ekkert til nærsamfélagsins. Mér finnst við þurfa að huga að kerfisbreytingum í þá veru að starfsemi skili einhverju til nærsamfélagsins, skili því beint en ekki í gegnum hið opinbera sem getur síðan verið ákveðinn þröskuldur eða greiðatæki, til að byggja upp starfsemi á landsbyggðinni.

Þetta á sérstaklega við þegar við horfum til framtíðar, eins og lög um opinber fjármál gera. Þar eru tekin fimm ár fram í tímann. Við þurfum oft að hugsa dálítið lengra, t.d. með tilliti til olíugjaldsins. Það er mjög gott að fara út í þá sköttun til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins, en við þurfum líka að hugsa til tækniframfara. Það er jafnvel ekkert svo langt þangað til að orkulindir eins og olía og kol og gas o.fl. verða orðnar það dýrar miðað við aðra orkugjafa að það vandamál leysist af sjálfu sér. Því fyrr sem við komumst á þann stað, þeim mun betra. Þá erum við algerlega laus við þetta vandamál. Þá myndast ákveðnir hvatar, ekki endilega bara skattar heldur hvatar, til nýsköpunarstarfsemi, til þess að komast á þann stað, í staðinn fyrir að fjármagna það endilega með sköttum á kolefnum, því að orkuframleiðendur núna eru í þeirri aðstöðu að vera með fjármagn til að fara út í nýsköpun í orkuvinnslu. En þeir gera það ekki. Þeir hanga á þeim orkuauðlindum sem þeir hafa og fullnýta þær þó að kostnaðurinn samfélagslega sé gríðarlegur. Við getum kannski haft einhver áhrif á það með því að vinna með þeim í nýsköpun, jafnvel með kolefnisgjaldinu að einhverju leyti til, sem mundi kannski skila sér, eins og aðrir kaflar hérna, í hvötum til nýsköpunar á móti.