146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst af öllu taka undir orð hv. þm. Kolbeins Proppés um ranga gagnrýni hæstv. fjármálaráðherra á forstöðumenn ríkisstofnana, hún kom mér mjög á óvart. En að öðru. Ég ræddi gistináttagjald í umræðunni í gær. Ígildi þess dugði fyrir tveimur karamellum, en núna fyrir hálfum lítra af gosdrykk á bensínstöð, þetta eru heilar 300 kr. Auðvitað er ánægjulegt að sjá hækkunina, en hún vekur spurningar. Af hverju er ekki valin hlutfallstala eða prósentutala? Við vitum öll að fjöldi gististaða tekur 10.000 til 70.000 kr. fyrir næturgreiðann, en í ódýrri gistingu er farið fram á minna. Það er því mun eðlilegra að hlutfallslega dýr gisting leggi meira af mörkum til ríkisins en ódýr. Í þessu sambandi má minnast á ósk sveitarfélaga um að fá sjálfsagða hlutdeild í gistináttagjaldinu, sem er ekki ljós núna.

Hins spurningin er þessi: Hvaða rök hníga að því að hækka ekki gistináttagjaldið fyrr en 1. september 2017? Upphæðin, 300 kr., ofan á upphæðir sem eru taldar í mörgum þúsundum eða tugþúsundum, veldur ekki jarðskjálfta. Með þessu ráðslagi verður ríkissjóður af 900 millj. kr. á næsta ári, eða 2017. Gistináttagjaldið gefur af sér 300 millj. kr. 2017 en áætlað 2018 1.200 millj. kr. Sé mismunurinn, þessar 900 millj. kr., settur inn í töfluna yfir áhrif á afkomu ríkissjóðs í bandormsplagginu þá hækka jákvæðu nettóáhrifin úr 1.450 millj. kr. í 2.350 millj. kr. Það munar um minna.

Nú er hæstv. fjármálaráðherra ekki hér til svara svo að ég veit ekki hver svarar þessum spurningum.

Svo að ég staðsetji mig í mínu eigin kjördæmi, Suðurkjördæmi, þá dugar upphæðin sem okkur vantar úr fullu gistináttagjaldi allt árið, þ.e. þessar 900 millj. kr., til þriggja mikilvægra úrbóta. Í fyrsta lagi: 300 millj. kr. þarf til að bjarga einum mikilvægasta skóla landsins frá hruni, Garðyrkjuskólanum í Hveragerði, sem er undirstaða menntunar og nýsköpunar og þróunar í ylrækt. Í öðru lagi: Þetta mundi duga til aukafjárveitinga til tveggja heilbrigðisstofnana sem eru nánast á hnjánum, sem eru Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, frammi fyrir síauknum verkefnum og minnkandi þjónustustigi. Í þriðja lagi: Auknar fjárveitingar til þekkingarsetra og háskólafélaga í Suðurkjördæmi sem berjast í bökkum hver um sig. Þetta eru hlutar menntakerfis, nýsköpunar og rannsókna sem eru meðal lífæða landsbyggðarinnar.

Auðvitað nefni ég þetta ekki sem raunverulega leið því að fé gistináttagjalds dreifist með öðrum hætti í raun og veru. En ég nefni þessi þrjú atriði til skýringar á því hvað hér er í húfi.

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi komugjöld sem svo sannarlega koma vel til greina, en við höfum rætt skylda fjáröflun í eitt til tvö ár án árangurs. Það eru því vonbrigði að á því sé ekki tekið hraustlegar í fjármögnun úrbóta í ferðaþjónustu en raun ber vitni í fjárlagafrumvarpinu. Við hljótum að sinna hlutverki okkar betur hér á þessu 146. þingi.

Umræður hér á þinginu eiga grunn í ólíkum skoðunum þingmanna á fjáröflun til ótal brýnna verkefna. Ég segi: Við skulum sjá skóginn fyrir trjánum, hv. þingmenn, því að staðan er nokkuð ljós. Það eru til fyrirtæki sem skila methagnaði og eru aflögufær. Um 1% þeirra sem hafa fjármagnstekjur fá greiddar um 44% þeirra. Fjármagnstekjurnar eru víst 95 milljarðar. Um 10% þjóðarinnar eiga um 60% eigna í landinu. Launafólk í tveimur hæstu tekjuþrepum Hagstofunnar fær greiddan um helming launa í landinu, það eru yfir 700 milljarðar sem koma í hlut þess fólks. Þegar rætt er um að þessir aðilar leggi meira til samfélagsins en nú er gert minnir það okkur á að örsamfélagið Ísland er sérstætt. Þar standa um 330.000 mannverur og fyrirtæki undir menningar- og velferðarþjóðfélagi nokkurn veginn á pari við nágrannalöndin sem eru öll miklu fjölmennari. Þess vegna er sáraeðlilegt að við gerum jafnvel meiri kröfur á skatt og gjaldheimtu en tíðkast til dæmis í milljónalöndunum. Háskóli á Íslandi kostar jafn mikið og háskóli í Noregi.

Hollt er að minna á hvernig ríkið á árunum 1930 til 1980, í svo sem eins og hálfa öld, rak næstum allt, bæði þjónustu og meðalstór fyrirtæki hér í landinu. Smæðar samfélagsins vegna hefur þetta smám saman breyst með stækkandi þjóðfélagi og breyttum aðstæðum. Hvað sem því líður er samneysla á Íslandi og ríkisaðstoð enn þá og eðlilega stór þáttur. Það er allsendis óþarfi að gera skattheimtu tortryggilega eða neita því að jöfnuður og velferð eru háð öflugu og réttlátu gjalda- og skattkerfi. Núverandi fjárlög endurspegla ekki nógu vel þarfir þjóðfélagsins. Úrbætur snúa að hv. fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd og okkur þingmönnum ber að berja sem allra mest í brestina.

Að lokum: Hér hefur kolefnisgjald verið nefnt og lausn á umræðum um það er sáraeinföld. Það á að leggjast, ég nefni hér enga sérstaka tölu, jafnt á eldsneyti sem aðföng til iðnaðar og stóriðju, þ.e. kol, koks, trjáflísar, rafskaut o.s.frv. Allt annað er rökleysa.