146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Takk fyrir þær góðu umræður sem hafa verið í gangi í dag. Mig langar að benda á að spilling er til af tvennum toga. Annars vegar það form spillingar sem var mikið til umræðu fyrir kosningar þar sem fólk gerir vísvitandi eitthvað rangt, í skjóli embættis síns eða í skjóli leyndar. Hitt formið snýr að því frumvarpi sem er til umræðu í dag og því fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í gær og til umræðu þá. Það form hefur verið kallað stofnanaleg spilling og birtist þegar tilgangi stofnunarinnar er spillt, stofnunin sjálf nær ekki að sinna hlutverki sínu vegna innri eða ytri áhrifa. Slíkri spillingu er ekki neinum tilteknum að kenna en það skiptir engu að síður máli að hún sé upprætt.

Fjármunaskortur, víðfeðm undanþágumenning og gallað regluverk leiða til þess að Samkeppniseftirlitið nær t.d. ekki að rannsaka lykilgeira efnahagsins, að samgönguáætlun er lygasaga, að Landhelgisgæslan þarf að leggja þriðjungi flota síns og að lögreglan á Suðurlandi getur ekki passað upp á fólkið sem heimsækir náttúruperlur okkar þar með viðunandi hætti.

Þá hefur landlæknisembættinu reynst ógjörningur að skrá rétt hversu margar amfetamínpillur fara í umferð, Hagstofunni ekki tekist að sjálfvirknivæða útreikning ýmissa hagstærða og þar fram eftir götunum. Oft hefur sömuleiðis verið rætt um það hvernig umhverfissjónarmið eru látin víkja fyrir öðrum sjónarmiðum, jafnvel þegar umtalsverður umhverfisskaði liggur við. Þegar þetta frumvarp er skoðað í því ljósi sést að til stendur að fórna umhverfinu á altari lágskattastefnu. Meðan flest viðmiðunarlönd okkar hækka gjöld vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum og setja hærri álögur á óumhverfisvæna bíla eru í þessu frumvarpi lækkuð gjöld sem skapa efnahagslegan hvata til að menga meira og aka óvistvænni bílum.

Endurgjaldslausar heimildir til losunar koltvísýrings frá verksmiðjum stuðla ekki á nokkurn hátt að því markmiði að Parísarsamkomulagið sé virt, eins og kom fram í máli hv. þingmanna Katrínar Jakobsdóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur fyrr í dag.

Ofan á þetta allt kemur svo þjóðhagsspá hverrar spágildi er óþekkt að öðru leyti en að hún stenst nánast aldrei.

Forseti. Tilgangur minn með því að þylja upp þessi mörgu dæmi um bresti stjórnkerfisins er ekki að vega að heiðri þeirra stofnana sem eiga í hlut. Tilgangur minn er heldur ekki að hlífa þeim stofnunum sem eru ekki til taldar. Tilgangurinn er að reyna að vekja okkur til umhugsunar um að það er margt að og fjármálastefna ríkisins er undirstaðan að öllu sem er að.

Við á þessu þingi þurfum að líta á þetta frumvarp bæði sem vel unnið þingmál, sem það er, en einnig sem táknmynd stjórnkerfis sem getur ekki sinnt hlutverki sínu. Þessi stofnanalega spilling er engum sérstökum að kenna en við þurfum að taka höndum saman um að tækla hana. Við þurfum að setja okkur skýrari verkferla, betri reglur, fækka undanþágum og fjölga varnöglum. Við þurfum að læra að gera meira með minna, auka framleiðni og skilvirkni, en aldrei missa sjónar á því hverjir eiga að njóta góðs af þeirri vinnu.

Almennt má segja um bæði þetta frumvarp og fjárlagafrumvarpið að þau lýsa viðhorfi sem er í besta falli úrelt, viðhorfi sem leiðir til þess að við sóum tækifærum á atvinnumarkaði, gröfum undan trúverðugleika stjórnkerfisins og skiljum fátæka, aldraða, öryrkja og ýmsa aðra minnihlutahópa í samfélaginu eftir með litla von.

Spurning mín er hvort markmið okkar hér sé að skapa gott samfélag fyrir peninga eða skapa gott samfélag fyrir fólk. Þessi markmið eru samrýmanleg, það er alveg hægt að ná þeim báðum samtímis og meira að segja vitum við að sterkt hagkerfi er undirstaða góðrar velferðar en það er ekki að sjá í þessum frumvörpum, því miður. Þessi bandormur þræðir sig í gegnum lagasafnið og skilur eftir sig slóð áminninga um hvað megi betur fara.

Breytum þessu, frú forseti, breytum þessu.