146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er talað um störf þingsins og þá eru þau eðli málsins samkvæmt það sem við þurfum að klára, nauðsynleg mál, rétt fyrir jól, þar á meðal fjárlög. Við erum núna í fyrsta skipti að vinna eftir lögum um opinber fjármál og ástæðan fyrir því að við samþykktum þau lög er að við viljum vera eins og þær þjóðir sem best standa sig hvað það varðar. Það er hins vegar ekki nóg að samþykkja lög. Í þessum löndum er þverpólitísk samstaða um ákveðið vinnulag, ákveðið orðalag og hvernig menn haga sér, m.a. í fjölmiðlum. Þar kom t.d. að því sem hv. þingmaður ræddi hér og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir, hann benti á hið augljósa, að sú orðræða sem er í fjölmiðlum núna er ekki í samræmi við það sem við segjumst vilja vera með. Ef við segjumst vilja vera eins og aðrir Norðurlandabúar þá þurfum við að haga okkur eins og þeir, eða er það ekki?

Virðulegi forseti. Sumt er ekki rætt hérna sem mér finnst vera risamál, m.a. í fjárlögum. Það er aldrei rætt um að lækka skuldir. Ég spyr, virðulegi forseti: Ef við ætlum ekki að lækka skuldir, setja okkur metnaðarfull markmið um að lækka skuldir þegar svona stendur á, hvenær eigum við þá að gera það? Vaxtagjöldin, og þá eru ekki meðtaldar lífeyrisskuldbindingar en lífeyrisskuldir þarf að greiða líka, eru 70 milljarðar á ári. Það er mun meira en framlagið til Landspítalans. Vildum við ekki öll í þessum sal vera í þeirri stöðu að geta nýtt þá peninga í eitthvað annað? Ef við ætlum ekki að leggja á það áherslu að greiða þetta niður hratt og vel, ætlum við að bíða eftir því að það harðni í ári? Ætlum við þá að gera það?

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að við samþykkjum ekki bara lög um opinber fjármál (Forseti hringir.) og viljum þar af leiðandi vera eins og þau lönd sem standa sig best hvað varðar opinber fjármál, ég vona að við högum okkur líka samkvæmt því.


Efnisorð er vísa í ræðuna