146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Meðan ég trúi því að við gerðum allt sem við gátum þá get ég ekki skotið mér undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að okkur mistókst það ætlunarverk okkar í gær að mynda ríkisstjórn. Það er ekki heimsendir og það er enn möguleiki á að ná stjórn saman með ýmsum hætti, en raunin er sú að á meðan stjórnmálamenn á Íslandi eru að tefja framfarir með smáatriðum þá eru ótal heimsins vandamál sem við náum ekki að leysa.

Í nótt bárust hrikalegar fréttir frá Sýrlandi eins og undanfarin fimm ár, nema í upphafi fjölluðu þær fyrst og fremst um borgina Homs fremur en Aleppó eins og í gær. Frá árinu 2011 hefur nánast hver einasti dagur verið markaður dauðsföllum í Sýrlandi. Ég man einn dag í júlí 2011 þegar ungur maður var að lýsa því fyrir mér í gegnum textaskilaboð þegar skriðdrekar keyrðu inn í borgina Homs, skjótandi hingað og þangað af handahófi. Svo hættu lýsingarnar skyndilega að berast.

Vesturlönd hafa þóst hjálpa til og sett sig á háan hest fyrir að vera að gera svo góða hluti, fyrir að vera svo góð að taka á móti flóttamönnum, nema alls ekki of mörgum og aðeins þeim sem hentar. Á meðan streymir olía frá stríðssvæðinu, peningar streyma inn, peningar streyma út aftur og vopn koma í þeirra stað. Ég hef sjálfur komið að rannsókn sem sýndi fram á vopnasölu upp á 1,5 milljarða dollara inn í Sýrland á stríðstímum. Það er ekki nokkur skapaður hlutur sem hefur verið gerður af hálfu vestrænna stjórnvalda til að koma í veg fyrir eða stöðva þetta stríð. Skömm Vesturveldanna er algjör. En það mun enginn pæla í því.

Ég er ekki að segja að það sé á valdi ríkisstjórnar Íslands að leysa þetta vandamál, en það er algjörlega ljóst að geta Íslands til þess að miðla málum og stuðla að friði í heiminum er engin meðan við getum ekki einu sinni leyst úr minni háttar ágreiningi hér heima. Það er því fyrir mannkynið allt sem ég græt getuleysi okkar í dag. (Forseti hringir.) Íslands vald er mikið og ábyrgðin eftir því.


Efnisorð er vísa í ræðuna