146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við þingsetningu undirritaði ég drengskaparheit að stjórnarskránni. Það er því ekki úr vegi að mitt fyrsta ávarp á Alþingi varði verndun mikilvægra réttinda sem þar er að finna. Hér vísa ég, með leyfi forseta, til 65. gr. stjórnarskrárinnar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum.“

Ég vek athygli þingsins á þessari grein vegna þess að ekki eru allir jafnir fyrir lögum á Íslandi og því verður að breyta. Ég vísa hér einna helst til lögræðislaga en þar er að finna ýmis ákvæði sem mismuna fólki á grundvelli fötlunar. Má þar nefna 19. gr. laganna sem heimilar frelsissviptingu, svokallaða nauðungarvistun einstaklings, á þeim grunni einum að hann sé, með leyfi forseta, „haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms“.

Ekki er að finna í lögræðislögunum önnur skilyrði til slíkrar frelsissviptingar og því verð ég að taka undir ítrekaðar ávirðingar Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum sem bent hefur á að ákvæðið feli í sér lagalega mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma.

Annað alvarlegt dæmi um slíka mismunun er að finna í lögum um fóstureyðingar sem gera lögráðamanni lögræðissviptrar konu kleift að neyða hana í fóstureyðingu. Þvingaðar fóstureyðingar hafa verið skilgreindar sem form pyndinga af sérlegum sendiherra Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum.

Herra forseti. Þessi lög eru ólög. Þau standast hvorki stjórnarskrá né samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég bið því hv. þingmenn alla að leggja mér lið til að fá þeim breytt við fyrsta tækifæri.


Efnisorð er vísa í ræðuna