146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bjóða nýja þingmenn velkomna til starfa. Ég finn að það fylgja þeim ferskir vindar, eins og í Garðinum. Ég hlakka til að eiga samstarf við ykkur. Ég hef fylgst með ykkur og þó að ég hafi ekki langa þingreynslu finn ég að þið eruð í sömu sporum og ég fyrir rúmum þremur árum, við finnum öll til ábyrgðar okkar þegar við setjumst á Alþingi. Ég veit að þið eigið eftir að láta gott af ykkur leiða og ég hlakka til samstarfsins.

Það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur, m.a. sú að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn. Undanfarnar vikur hafa þingmenn og ráðherrar, formenn flokkanna, glímt við að mynda ríkisstjórn. Því miður hefur það ekki enn tekist. Ég held að við þurfum öll að setja okkur í þau spor að nú þurfum við að ná samstöðu um ríkisstjórn og sýna þjóðinni að við rísum undir þeirri ábyrgð sem á okkur hvílir, að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það er frumskylda okkar á þessum tíma.

Það eru fordæmalausir tímar í þinginu, fjárlögin í gangi og við finnum að þrátt fyrir góðan takt hér í salnum er þetta ekki eins og það á að vera.

Ef við nýtum ekki þennan stutta tíma til jóla til að ljúka myndun ríkisstjórnar held ég að hér verði starfsstjórn og kosningar að vori. Það er ekki endilega lakasti kosturinn, en það blasir við í dag að ef við náum ekki saman verður það líklegasta niðurstaðan.


Efnisorð er vísa í ræðuna