146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst fara vel á því að hv. þingmenn komi hingað upp og veki athygli á þeim hörmungum sem eru í Sýrlandi. Ég er hjartanlega sammála því að við eigum að gera hvað við getum til að koma til aðstoðar þar og hef rætt það áður á þessum vettvangi.

Ég vil hins vegar í seinni ræðu minni segja að mér finnst þetta þinghald hafa farið vel af stað og mér finnst umræður, bæði í þeirri nefnd sem ég starfa sem og hér í þingsal, hafa verið málefnalegar og góðar. Ég held að vel færi á því að við héldum því áfram á þeim fáu dögum sem við höfum til að klára mjög mikilvæg mál. Við vitum að okkur er þröngur stakkur sniðinn (SSv: skorinn) … skorinn. Þakka þér fyrir. Svona er samstarfið gott á hv. þingi, virðulegi forseti, að meira að segja hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er farin að hjálpa þeim sem hér stendur og hefur það nú ekki gerst oft á þeim tíma sem við höfum starfað saman. (SSv: Nei, en …) Ég trúi nú ekki að síðasta yfirlýsing hv. þingmanns sé rétt, ég held að þetta verði svona alveg fram að jólum.

Menn tala mikið um stjórnarmyndun eðli málsins samkvæmt, við erum ekki búin að klára að mynda ríkisstjórn. En stóra málið núna er að það reynir á okkur þingmenn hvernig okkur gengur að starfa saman við þessar aðstæður. Það er stuttur tími og alveg ljóst að ný ríkisstjórn, sama hver hún verður, mun leggja stóru línurnar þegar kemur að ríkisfjármálum og koma með nýja ríkisfjármálaáætlun. Þá gef ég mér að við ætlum að starfa eftir þeim lögum og í anda þeirra laga sem við samþykktum samhljóða á síðasta kjörtímabili. En við þurfum hins vegar að vinna hratt og laga auðvitað það sem við getum lagað á þeim stutta tíma. En ég vil bara segja eins og er, mér finnst þetta fara vel af stað og ég vona að svo verði áfram.


Efnisorð er vísa í ræðuna