146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frumvarpið er að meginstefnu byggt á samkomulagi milli annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var áður flutt á 145. löggjafarþingi. Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands gerðu þá athugasemdir við frumvarpið við þinglega meðferð þess og töldu það ekki endurspegla samkomulagið sem gert var í september 2016 nægjanlega vel. Samtöl hafa staðið milli aðila um mögulega lausn og stóðu vonir til þess að sameiginleg niðurstaða fengist fyrir lok nóvember sl. en sú von brást. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst niðurstaða milli aðila um öll atriði er frumvarpið nú lagt fram að nýju.

Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var flutt á 145. löggjafarþingi. Með breytingunum er komið til móts við sjónarmið bandalaga opinberra starfsmanna sem komu fram við meðferð áður framlagðs frumvarps. Auk þess hafa verið gerðar tæknilegar breytingar á tilteknum ákvæðum frumvarpsins.

Helstu breytingar frá fyrra frumvarpi eru:

1. Framlag ríkisins til lífeyrisaukasjóðs er hækkað til samræmis við áætlaðar tryggingafræðilegar forsendur í árslok 2016. Í sjálfu samkomulaginu hafði verið gert ráð fyrir að miðað yrði við árslok 2015 en þessu er hér breytt.

2. Ríkissjóður greiðir framlag til A-deildar til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi.

3. Ríkissjóður ábyrgist óbreytt réttindi lífeyrisþega og sjóðfélaga sem orðnir eru 60 ára fyrir gildistöku nýrra samþykkta.

4. Við frumvarpið bætist ný grein sem fjallar um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Með henni er annars vegar frestað ákvörðunum um hækkun iðgjalda lífeyrissjóða á opinberum vinnumarkaði, þ.e. A-deild LSR og A-deild Brúar, og hins vegar felur greinin í sér undanþágu frá ákvæðum um samsetningu eigna.

5. Tilteknum dagsetningum og viðmiðunartímabilum er breytt þar sem ekki tókst að afgreiða málið á 145. löggjafarþingi.

Virðulegi forseti. Samkomulag frá því í september sl. kveður á um nýtt samræmt lífeyriskerfi þar sem allt launafólk nýtur sambærilegra lífeyrisréttinda, hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Helstu atriði samkomulagsins eru þessi:

Launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði verða samræmd og jöfnuð samkvæmt sérstakri bókun um það efni.

Launafólki verður betur gert kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda. Má segja að þetta leiði af jöfnuninni að með því að réttindin eru orðin sambærileg þá eru ólík réttindi ekki lengur sú hindrun sem oft hefur verið í vegi þess að færa sig milli hins opinbera og almenna markaðar.

Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða tryggð sambærileg réttindi og þeir hafa nú með 120 milljarða kr. framlagi hins opinbera til að mæta ófjármögnuðum framtíðarskuldbindingum vegna þeirra.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verður fullfjármagnað og kerfið sjálfbært.

Tilurð þessa samkomulags má rekja til viðræðna aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn þess að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Ein af forsendum þess að ná fram slíkri samræmingu er að færa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í svipað horf og nú gildir á hinum almenna vinnumarkaði. Hafa viðræður um breytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna farið fram á vettvangi starfshóps um LSR sem skipaður var í mars 2011 og í eiga sæti fulltrúar annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðherra.

Í frumvarpinu er lagt til að lagaákvæði um A-deild verði að meginstefnu til felld brott í lok maí 2017 og að deildin verði frá og með 1. júní 2017 starfrækt á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samþykkta sem um hana gilda. Þar með er horfið frá því að kveða á um föst réttindi sjóðfélaga á grundvelli breytilegs iðgjalds í lögum líkt og nú er gert.

Þá er og gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins leggi til breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem nýtt réttindakerfi verður sett upp, miðað við fast iðgjald, og fjallað verður um aðra þætti sem þýðingu hafa, til að mynda um skipulag sjóðsins að öðru leyti og fjárfestingarstefnu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði framlag, svonefndan lífeyrisauka, þ.e. þann mismun sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri, og leggi fjármagn í sérstakan varúðarsjóð.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er það sameiginlegt mat að í ljósi fjárhagsstöðu ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar sé það í þágu settra markmiða um opinber fjármál að ríkissjóður taki yfir um 23,6 milljarða kr. skuldbindingu sem sveitarfélögin hefðu ella borið vegna fjárframlaga til A-deildar LSR. Jafnframt er það sameiginlegur skilningur að í viðræðum ríkis og sveitarfélaga næstu misseri um fjárhagsleg samskipti, m.a. vegna áhrifa lagabreytinga, verði tekið tillit til þess stuðnings ríkisins við sveitarfélög sem felst í yfirtöku skuldbindinganna. Eftir sem áður munu sveitarfélögin bera kostnað vegna A-deildar Brúar og eykur það hreinar skuldir sveitarfélaganna þó nokkuð.

Lengi hefur verið stefnt að því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum, en einn liðurinn í því er að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði, bæði til þess að auðvelda samanburð á kjörum hópanna og til þess að tryggt sé að launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geti flutt sig til á vinnumarkaði, líkt og ég hef áður komið inn á, og á milli lífeyrissjóða hvenær sem er á starfsævinni án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindaávinnslu þeirra.

Almenni markaðurinn hefur þegar tekið upp aldurstengda ávinnslu en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag í desember 2004 um að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu í sjóðum á samningssviði þeirra. Henni var komið á í sjóðum með tiltekinni aðlögun. Þannig héldu þeir sjóðfélagar sem voru greiðandi við breytinguna að jafnaði rétti til jafnrar réttindamyndunar að tilteknu hámarki til loka starfsævinnar og iðgjald umfram það hámark reiknast til réttinda samkvæmt almennum reglum um aldurstengda ávinnslu.

Í þessu sambandi þykir rétt að líta til þess að þær forsendur sem gengið var út frá við setningu laga nr. 1/1997 hafa ekki gengið eftir þegar litið er til tryggingafræðilegra forsendna. Þannig var tryggingafræðileg staða A-deildar í árslok 2015 neikvæð um rúma 57 milljarða kr., þ.e. um 8,8% af heildarskuldbindingum sjóðsins. Sú staða kallar enn fremur á breytingar. Til að sjóðurinn komist í jafnvægi þyrfti iðgjald launagreiðenda að hækka úr 11,5% í 15,1% þannig að iðgjald í heild yrði 19,1%. Í núverandi kerfi safnast réttindi eftir jafnri réttindaávinnslu. Slík ávinnsla leiðir til þess að króna sem borguð er inn fyrir starfsmann sem er t.d. 66 ára gefur jafn ríkuleg réttindi og fyrir starfsmann sem er t.d. 20 ára þrátt fyrir að króna þess yngri eigi eftir að safna ávöxtun í 47 ár en þess eldri í einungis eitt ár. Þetta leiðir í reynd til þess að ungar kynslóðir niðurgreiða réttindi eldri kynslóða samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi.

Eins og staðan er nú er útilokað að A-deild geti verið sjálfbær meðan deildin er með jafna réttindaávinnslu sökum aldurssamsetningar sjóðfélaganna. Aldurstengd réttindaávinnsla leiðréttir þetta misvægi þar sem kerfið gerir ráð fyrir því að iðgjöld skapi réttindi í samræmi við þann tíma sem þau ávaxtast í sjóðnum.

Þá leiðir aldurstenging til þess að afkoma lífeyrissjóðsins er óháð aldurssamsetningu sjóðfélaga. Flestir lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa undanfarin ár leiðrétt þetta misræmi og það er áríðandi að sama leið verði farin til að koma jafnvægi á A-deild.

Í frumvarpinu er því lagt til að lagaákvæði um A-deild verði í meginatriðum felld brott og samhliða verði samþykktum fyrir sjóðinn breytt og þar kveðið á um að hann byggi á aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Með þessu verður aldurstengd réttindaávinnsla fest í sessi í íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingar á skipan lífeyrismála þorra opinberra starfsmanna eins og ég hef reifað. Réttindaávinnsla sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verður aldursháð en ekki jöfn yfir starfsævina en samhliða þeirri breytingu er halli á framtíðarskuldbindingum LSR og Brúar að fullu fjármagnaður af opinberum launagreiðendum, auk þess sem lífeyristökualdur verður hækkaður úr 65 árum í 67.

Þessar breytingar eru til samræmis við það sem tíðkast á almennum markaði. Til að tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga verður greidd eingreiðsla launagreiðenda inn í deildina sem lögin ná til og mun það tryggja að breytingin verði ekki gerð á kostnað þeirra sjóðfélaga sem hafa áunnið sér réttindi. Auk þess er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði framlag til A-deildar til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi. Breytingarnar tryggja að sjóðurinn verður sjálfbær og því er óvissu um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart sjóðnum jafnframt eytt með þessum aðgerðum. Hér er rétt að geta þess að fyrr á árinu tók almenni markaðurinn skref í þessa átt og ASÍ og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samning þar sem lífeyrismótframlag vinnuveitenda er aukið í áföngum til jafns við mótframlag á opinberum vinnumarkaði og sú aðlögun verður að fullu komin til framkvæmda um mitt ár 2018.

Það er sem sagt unnið að því að á íslenskum vinnumarkaði verði lífeyrisréttindin jöfnuð og á þeim markaði er gert ráð fyrir að viðmið lífeyris verði 76% fyrir allan vinnumarkaðinn. Á heildina litið mun breytingin hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn þar sem hún eykur val og sveigjanleika vinnuafls. Vinnuafl mun, eins og ég hef komið inn á, geta lagað sig að breytilegri eftirspurn markaðanna og langtímaáhrif af jöfnun lífeyrisréttinda eru líkleg til að hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið í heild. Ekki skiptir litlu í því samhengi að eyða óvissu um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs og hér er verið að gera rekstur opinberu lífeyrissjóðanna sjálfbæran. Það er eitt og sér stórmál, þó er ekki hægt að horfa fram hjá því að enn erum við með uppsafnaðan halla á B-deildinni en við erum þegar að stíga skref til að taka á þeim uppsafnaða vanda sem þar er til staðar. Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 5 milljarða framlagi inn í B-deildina til að byrja að vinna niður þá uppsöfnuðu stöðu sem þar er að finna.

Í augsýn er að í kjölfar þessara ráðstafana og skyldra áforma verði Ísland eitt örfárra ríkja í heiminum með fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar, bæði fyrir fjármál hins opinbera og efnahagskerfið í heild.

Varðandi B-deildina er hægt að segja að gríðarlega mikilvægt sé að við höldum striki varðandi það að taka á þeim vanda. Eins og ég hef komið inn á erum við að byrja inngreiðslu á næsta ári og við höfum í fjárlögum undanfarin ár vakið athygli á skekkjunni sem er þar til staðar. Það er ljóst að í kringum árið 2026 tæmist eignastaða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í B-deild á móti skuldbindingum og þá sitja skuldbindingar einar eftir og ríkissjóður mun að óbreyttu frá þeim tíma, verði ekkert gert í millitíðinni, sem við reyndar ætlum að gera eins og fjárlagafrumvarpið ber með sér fyrir næsta ár, myndi ríkissjóður þurfa að greiða út á bilinu 25–30 milljarða ár hvert til að mæta þeim þegar útgefnu skuldbindingum.

Með fyrirframgreiðslu inn á þessa skuldbindingu er dregið úr því höggi eða því umfangi sem fellur á ríkið í framtíðinni og greiðslunum dreift yfir mun lengri tíma. Þetta er ótvírætt afar skynsamleg ráðstöfun sem við eigum að sammælast um að styðja, ella erum við einfaldlega að ýta vandanum enn frekar á undan okkur.

Ég kom inn á það að Ísland er eitt örfárra ríkja í heiminum sem með þeim breytingum sem við erum hér að boða mun hafa virkt og fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna. Þetta er eitt stærsta hagsmunamál framtíðarkynslóða sem við vinnum að og í samhengi hlutanna er í raun og veru merkilegt hve lítið er horft til þátta eins og þessa þegar metin er staða einstakra þjóðríkja. Ég nefni sem dæmi að matsfyrirtæki horfa algerlega fram hjá uppsöfnuðum skuldbindingum ríkissjóða þegar lagt er mat á getu þeirra til að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Að jafnaði horfa matsfyrirtækin einungis til skuldbindinga sem falla til á næstu fimm árum og þar með eru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar algerlega fyrir utan radar matsfyrirtækjanna. Það er eitt og annað sem bendir til þess að viðhorfin séu aðeins að breytast í þessu efni, maður er farinn að verða var við að þessi uppsafnaði vandi sé að færast nær yfirborðinu og er í auknum mæli að verða hluti af umræðu um stöðu opinberra fjármála í einstökum ríkjum.

Víða í Evrópu er byggt á gegnumstreymiskerfi, það er sem sagt verið að gefa loforð daginn út og daginn inn um að fólk eigi inni hjá viðkomandi ríkisstjórnum lífeyrisréttindi einhvern tímann í framtíðinni sem skattgreiðendur þess tíma munu að óbreyttu þurfa að sjá um að standa undir. Það er ekki glæsilegt þegar maður horfir á sama tíma á þá lýðfræðilegu þróun sem á sér stað í þeim löndum.

Það er ágætt að hafa þetta stóra samhengi hlutanna fyrir stöðu opinberra fjármála á Íslandi í huga í tengslum við þetta mál en við getum líka sett það í annað samhengi. Ég ætla að gera það og aðeins að nefna að við höfum verið að vinna að auknum stöðugleika, lægri verðbólgu og lægra vaxtastigi til lengri tíma á Íslandi. Vaxtagjöld heimilanna í landinu eru um 100 milljarðar á ári og meðalvaxtastigið liggur í kringum 5%. Það þýðir að hvert prósent sem okkur tekst að lækka í vaxtabyrði heimilanna myndi létta af þeim u.þ.b. 20 milljörðum í vexti á ári. Ég segi bara fullum fetum að þetta mál hér, jöfnun lífeyrisréttinda, er einn áfanginn, ein varðan, á leiðinni í átt að nýju vinnumarkaðsmódeli á Íslandi sem er bráðnauðsynlegt að komist á og verði áfram unnið að til þess að við færum okkur nær því vinnumarkaðslíkani sem lagt er til grundvallar á Norðurlöndunum. Þar hefur mönnum tekist að búa þannig um kjarasamningagerð, bæði á almenna og opinbera markaðnum, að mun sjaldnar hefur reynt á það að teknar séu út í kjaraviðræðum hækkanir sem eru umfram það svigrúm sem er til staðar í hagkerfinu hverju sinni og þar af leiðandi hefur það sjaldnar gerst þar að menn geri kjarasamninga sem hafi beinlínis orðið til þess að verðbólguþrýstingur vaxi og síðan í kjölfarið að vaxtastigið hækki. Ég held að það sé alveg full ástæða til að setja þetta mál í það samhengi enda er það svo að jöfnun lífeyrisréttinda er eitt af kjarnaatriðunum í SALEK-samkomulaginu ásamt með því sem ég hef hér aðeins komið inn á, sem er launaskriðstrygging eða jöfnun kjara að öðru leyti. Launaskriðstryggingin er krafa opinbera markaðarins sem er á margan hátt skiljanlegt að haldið sé á lofti vegna þess að launaskriðið hefur almennt fyrst og fremst orðið hér á almenna markaðnum á meðan kjarasamningarnir hafa verið grundvöllur launaþróunar hjá opinberum starfsmönnum.

Þetta eitt og sér hefur leitt til spennu sem hefur oft brotist út í hörðum átökum á vinnumarkaði. Það er nokkuð sem við hljótum öll að vilja vinna að breytingum á, að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni og það mál sem við erum hér að ræða er einn hornsteinninn í þeirri vinnu.

Það er full ástæða til að þakka fyrir ágætissamstarf sem hefur tekist með heildarsamtökum um þessi mál. Þetta er ekki einfalt mál, það er skiljanlegt að menn vilji hafa skoðun á því hvað eigi að koma á undan, jöfnun kjara og launa á milli markaða eða jöfnun lífeyrisréttinda. Hér er unnið með þá hugsun að rétt sé að fara fyrst í að jafna lífeyrisréttindin og það sé forsenda þess að hægt sé að vinna að hinu í framhaldinu. Eins og ég vék að er rætt um jöfnun kjaranna, jöfnun launa, í sérstakri bókun og það er einn þátturinn í þeirri vinnu sem staðið hefur yfir, að opinberir starfsmenn muni í framtíðinni geta notið launaskriðstrygginga.

Ég ætla ekki að fara yfir allt það sem skiptir máli í þessu stærra vinnumarkaðssamhengi í ræðu minni. Ég ætla bara að ítreka mikilvægi þess máls, ekki síst við þær aðstæður sem eru uppi núna. Við vitum að enn er spenna á vinnumarkaði og ég ætla að láta það duga að segja að takist okkur ekki að finna niðurstöðu í þessu máli liggur fyrir að iðgjöldin munu hækka um áramótin og við það eitt eru iðgjöld launagreiðenda á opinbera markaðnum og hinum almenna orðin gjörólík og það verður ekkert smávegis verkefni að vinda ofan af þeirri stöðu til að halda áfram vinnu að jöfnun lífeyrisréttinda á Íslandi.

Við stöndum í vissum skilningi á mjög viðkvæmum tímamótum með þessi mál hér á dagskrá og ég vonast eftir því að okkur takist í þessari umferð málsins, þó að það hafi ekki tekist fyrir nokkrum vikum síðan, að finna sameiginlega niðurstöðu í málinu sem sem allra mest sátt getur tekist um.

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki miklar væntingar um að hvert og eitt félag í landinu sem á aðild að heildarsamtökunum verði í öllum atriðum sátt við þá niðurstöðu sem fæst með þessu frumvarpi. Það er ekkert óeðlilegt eins og ég hef hér rakið. Sumir eru einfaldlega þeirrar skoðunar að fyrst þurfi að jafna launin og kjörin að öðru leyti og svo megi skoða jöfnun lífeyrisréttinda. En það samkomulag sem við gerðum við heildarsamtökin er um að við förum fyrst í jöfnun lífeyrisréttindanna en hins vegar skiptir máli að hlustað sé eftir sjónarmiðum og það höfum við verið að gera. Mörg af þeim atriðum sem eru komin inn í þetta frumvarp sem ekki voru í frumvarpinu þegar það var síðast lagt fram eru breytingar sem við höfðum þá þegar hafið samtal um þó að ekki ynnist tími og aðstæður væru kannski ekki að spila með okkur í aðdraganda kosninga til að ljúka því á þeim tíma.

Ljóst er að þær breytingar sem fylgja frumvarpinu munu kalla eftir töluvert hærra framlagi af ríkisins hálfu til að styðja við jöfnunina. Það kemur til af því sem ég rakti áðan að nú er horft til stöðu lífeyrissjóðanna við árslok 2016 en ekki árslok 2015. Horft er til ávöxtunar á yfirstandandi ári sem hefur svo sem ekki verið nálægt því jafn góð og síðastliðin tvö, þrjú ár. Það hefur sömuleiðis áhrif í þessu samhengi að verið er að verja stöðu þeirra sem eru komnir á lífeyrisaldur eða eru að nálgast lífeyrisaldur með því að hér er komið inn 60 ára viðmiðið sem ekki var í frumvarpinu í fyrri mynd. Með því má segja að það sé að verulegu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu fyrr á þessu ári, við fyrra frumvarpi, þegar rætt var um að það skorti á að staða þeirra sem málið varðaði væri ekki jöfn fyrir og eftir breytinguna, með því að bakábyrgðin er í reynd áfram í gildi fyrir 60 ára og eldri gjörbreytist sú staða.

Þetta allt samanlagt leiðir til þess að í fjáraukalögum, sem ég vænti að komi fram hér á morgun, munar tugum milljarða á því framlagi sem þarf að koma frá ríkinu til að þetta mál geti gengið upp. Það eru rétt tæplega 30 milljarðar sem bætast við þá rúmu 80 milljarða sem áður var gert ráð fyrir að þyrftu að fylgja þessari breytingu og gjaldfærast á yfirstandandi ári.

Við höfum svo sem líka komið inn á það í samskiptum við sveitarfélögin að það hefur ekkert breyst varðandi fjárhagslega getu sveitarfélaganna til að taka á sig auknar byrðar, það stendur bara óbreytt varðandi mikilvægi þess að ríkið hjálpi til og létti undir með sveitarfélögunum til að klára þetta mál. Það er margt sem á hinn bóginn gengur með okkur um þessar mundir. Þannig ætla ég að leyfa mér að segja að við séum á margan hátt í einstökum færum til að ljúka máli af þessari stærðargráðu á árinu 2016. Heildarstaðan í ríkisfjármálasamhenginu er slík að við getum, án þess að setja heildarafkomuna eða stöðu ríkisfjármálanna í öðru samhengi í einhvers konar uppnám, tekið á okkur gjaldfærslu af þessari stærðargráðu. Hins vegar er mjög mikilvægt að hafa í huga að hér er ekki um að ræða að ríkissjóður taki á sig skuldbindingar sem hann hefði ekki ella þurft að standa undir í framtíðinni. Það er í raun og veru verið að færa til í tíma skuldbindingar vegna loforða sem þegar voru gefin út, þ.e. uppgjör þeirra.

Ég vænti þess að sú vinna sem þegar hefur verið unnin í þinginu geti með einhverju móti nýst. Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er boðin fram öll aðstoð við að fara nánar ofan í saumana á málinu í þinglegri meðferð. Við höfum m.a. í upplýsingaskyni tekið saman stutt kynningarefni sem mér finnst sjálfsagt að verði gert opinbert á vefsíðu ráðuneytisins og sömuleiðis vænti ég þess að í þinglegri meðferð verði hlustað eftir sjónarmiðum þeirra sem málið varðar sérstaklega.

Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.