146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast við hugmyndina um að þeir sem völdu A-deildina verði varðir sérstaklega en ég sé í sjálfu sér ekki að ástæða sé til að ganga lengra en frumvarpið kveður á um, þ.e. að allir þeir sem eru í A-deildinni séu jafnsettir þegar kemur að þessu, óháð því hvenær og hvort þeir hafi á einhverjum tímapunkti átt kost á að vera mögulega áfram í B-deildinni. Það er einfaldlega slegið striki yfir 60 árin og það er ákveðið jafnræði í því að eitt skuli yfir alla ganga.

Hitt atriðið, varðandi það að loka deildinni og viðhalda þannig kerfinu eins og það er, koma þessu fyrir í einhverri einangrun og láta þetta lifa áfram sjálfstæðu lífi, er í sjálfu sér, eins og mér sýnist það vera, ákvörðun um að jöfnun lífeyrisréttindanna eigi sér stað yfir einhverja áratugi. Ég held að það sé alveg augljóst að það er ekki sú jöfnun lífeyrisréttinda sem almenni markaðurinn er að kalla eftir. Þar með talið, ef við færum þá leið, getum við alveg gleymt öllu tali um að í kjölfar breytingarinnar fari menn að vinna að jöfnun launa, launaskriðstryggingu og öllu hinu sem á að fylgja með í heildarbreytingunni.

Ég sé ekki annað en að ákvörðun um að loka deildinni og hefja C-deildar-ferðalagið, eða búa til nýja deild fyrir þá sem koma nýir inn sem starfsmenn hjá hinu opinbera, væri ákvörðun um að við sættum okkur við að þetta gerðist bara á næstu áratugum. Það er allt annað en samtalið hefur gengið út frá allt frá því það var sett af stað árið 2011.