146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að koma að því sem hann nefndi hér undir lok síns svars, sem varðar einmitt launajöfnunina sem gert er ráð fyrir að fari fram næstu sex til tíu árin: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að að því verði staðið? Það liggur fyrir að ekki er auðvelt að átta sig á launamun almenna markaðarins og opinbera markaðarins og hann er mismunandi milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið ágreiningur um það hvernig eigi í raun að reikna út eða meta þennan launamun. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta samtal geti farið fram þannig að það skili árangri? Því það er ljóst að einhverjir forsvarsmenn félaga í hinum opinbera geira hafa mestar áhyggjur af þessu, þ.e. að lífeyrisréttindin verði jöfnuð en kjarajöfnunin fylgi ekki í kjölfarið og vísa til þess að það sé bæði flókið verkefni og menn séu ekki á eitt sáttir um hvernig eigi að ráðast í það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hans sýn á þetta verkefni.