146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:41]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á málinu. Þetta er eins og við vitum mjög brýnt mál. Við reyndum mikið fyrir kosningar að takast á við það. Auðvitað kom það seint fram og tíminn var kannski ekki nægur, en engu að síður fann maður að fólk í öllum flokkum skildi vel að það var og er mikilvægt að við tökumst á við þetta verkefni. Helst þyrftum við að gera það núna í desember, fyrir áramót, því að við höfum til þess einstakt tækifæri.

Þetta er töluvert flókið mál og ég ætla ekki að láta eins og ég skilji það að fullu og þess vegna kem ég upp og spyr hæstv. ráðherra. Hann segir hér að ekki hafi náðst niðurstaða um öll atriðin. Hvaða atriði eru það þá nákvæmlega sem sitja eftir?

Svo í framhaldi af því sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði áðan um gagnrýni Kennarasambands Íslands sem stangast dálítið á við það sem kom fram í framsögu ráðherra, en Kennarasambandið segir að gengið sé á réttindi núverandi sjóðfélaga og eingreiðslna með þeirri breytingu sem nú er í vændum. Getur ráðherra varpað ljósi á þessa gagnrýni og hvernig hann sér hana? Við vitum að sjóðurinn er ekki sjálfbær. Við þurfum að gera breytingar. Við þurfum að jafna stöðu og flæði milli opinbera vinnumarkaðarins og einkamarkaðarins og við þurfum að hafa þetta þannig að það sé ekki eins og kom fram og hefur komið fram áður, að ungu kynslóðirnar niðurgreiði réttindi þeirra eldri. En það hefur verið önnur gagnrýni líka á að þeir sem ekki eru komnir inn í sjóðinn núna eða eru ekki enn með áunnin réttindi séu að missa einhver réttindi eða fái þá ekki þau réttindi sem þeir sem þar eru núna hafa. (Forseti hringir.) Getur hæstv. ráðherra varpað ljósi á þetta?