146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék að því í framsöguræðu minni að við værum ekki að taka á okkur í þessu máli kostnað sem ríkið væri ekki þegar búið að taka á sig með loforði um lífeyrisréttindi í framtíðinni. Við erum aðeins að færa til í tíma. Og ég get sagt að sama skapi: Ríkið er heldur ekki að reyna að komast þannig frá málinu að það losi sig undan einhverjum skuldbindingum sem það er þegar búið að lofa í framtíðinni. Það er sem sagt hvorki verið að taka á sig nýjar skuldbindingar né tel ég að ríkið sé að losa sig undan neinum skuldbindingum. En það er hins vegar verið að gera kerfisbreytingu og kerfisbreytingar geta mögulega í framtíðinni haft áhrif, allt eftir því hvernig úr spilast. Dæmin sem hv. þingmaður er kannski að kalla eftir eru: Hvað ef einhvern tíma í framtíðinni þarf að skerða réttindi þeirra sem eiga rétt sinn inni hjá A-deildinni, eftir 20–30 ár? Hvað ef eitthvað kemur upp á þannig að það þarf að skerða réttindi? Hvernig hefði það verið í kerfinu eins og það er í dag? Í dag hefði það verið þannig í grunninn að ríkið hefði tekið á sig að bæta það tjón sem þar hefði orðið með því að ríkið er í bakábyrgð í dag. Því erum við að breyta. Það má segja að mögulega sé hægt að horfa þannig á að í þessu felist einhver áhætta fyrir suma í framtíðinni en á móti kemur að ef vel gengur með ávöxtun sjóðsins þá batna réttindi sjóðfélaga ekki í dag en þau munu batna við breytinguna, ef vel gengur, alveg eins og á við á almenna markaðnum. Það er því bæði gefið og tekið í þessu. Það er ekkert óeðlilegt að það sjái þetta hver með sínum augum. Í mínum huga hlýtur að vera gríðarlega mikils virði fyrir sjóðfélaga í A-deildinni að ríkið geti við þessi tímamót fullfjármagnað til framtíðar þau réttindi sem eru þar inni. Það er eitt og sér risamál og það eru forréttindi (Forseti hringir.) íslenskra lífeyrisþega í LSR, A-deildinni, ef þessi breyting gengur eftir, sem nær enginn í Evrópu nýtur í dag.