146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel tvímælalaust að frumvarpið sé í samræmi við samkomulagið og reyndar, eins og ég vék að, gott betur vegna þess að í samkomulaginu var miðað við árslok 2015 en nú erum við að horfa á árslok 2016.

Til þess að einfalda þetta mál aðeins þá erum við í raun og veru að tala um að sumir hafa engan áhuga á því að hér verði gerð kerfisbreyting, þeir vilja halda í bakábyrgðina helst til næstu áratuga, jafnvel fyrir þann sem fyrst gerðist opinber starfsmaður í gær, að hann geti út starfsævina, í 30–40 ár, notið bakábyrgðarinnar og þess kerfis sem við höfum búið við og að þessi kerfisbreyting eigi aðeins við um framtíðina. Þetta er alveg kýrskýrt að var aldrei efni þess samkomulags sem hefur átt sér stað undanfarin ár, þess samtals sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Samtalið hefur allt gengið út á það að við jöfnuðum lífeyrisréttindastöðuna núna, ekki eftir 50 ár, ekki eftir 25 eða 30 ár, heldur að við ynnum að jöfnuninni núna strax.