146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi jöfnunina þá verð ég bara að vísa til þeirrar bókunar sem gerð var. Það er í sjálfu sér ekki útfært nákvæmlega hvernig staðið verður að því, þó eru gefnar vísbendingar um að menn muni sameiginlega vinna að því að skilgreina launamun, sé hann til staðar. Sé það rétt hjá hv. þingmanni að enginn launamunur sé til staðar þá held ég að það hljóti þá bara að verða niðurstaðan. En ég held að hann þekki það jafnvel betur en ég, hv. þingmaður, að þetta er auðvitað eilífðar deiluefni út af fyrir sig og ég vék að því að áðan, það er meira að segja deilt um það hvað eigi að taka með inn í þá jöfnu.

Hvað varðar lífeyrisaukann þá var lögð á það áhersla af viðsemjendum ríkis og sveitarfélaga í þessu máli að ef til þess kæmi að það reyndi á varasjóðinn vegna lífeyrisaukans þyrftu að verða við því einhver viðbrögð. Það sem samkomulagið gengur út á er að þá lofa menn að setjast yfir það og meta hvers vegna varasjóðurinn hefur tæmst en í sjálfu sér er engin ástæða til að gefa sér það fyrir fram.

Það sem mér finnst skipta máli hérna er þetta: Við höfðum verið að vinna með þá hugmynd að varasjóðurinn gæti mögulega líka staðið til fyllingar á réttindum lífeyrisþega, þeirra sem væru gengnir á lífeyrisaldur eða jafnvel allt niður í 60 árin. Það held ég að hefði verið slæm breyting. Ég held að það sé kostur að við erum þó að einangra varasjóðinn við lífeyrisaukann og látum þá bakábyrgðina lifa fyrir hitt. Það ætti að einfalda mögulegt framtíðaruppgjör vegna þessa. Við erum ekki að gjaldfæra varasjóðinn vegna þess að við höldum því til haga að mögulega reynir aldrei á hann og þá rennur hann bara aftur til ríkisins.