146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:13]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp um mikilvæg réttindi starfsmanna ríkisins. Breytingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru liður í því að jafna lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna og þeirra sem starfa á almennum markaði. Ávinnsla réttindanna verður framvegis aldurstengd og lífeyrisaldur samræmdur á öllum íslenskum vinnumarkaði. Samtímis er séð fyrir fjármögnun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Allt eru þetta mikilvæg skref til þess að stuðla að betra samræmi á vinnumarkaði hvað þessi grundvallarréttindi varðar og er það vel. Breytingin greiðir fyrir því að fólk geti fært sig milli starfa, óháð því hvort vinnuveitandinn er ríki, sveitarfélag eða einkafyrirtæki. Með þessu er rutt burt hindrun í vegi þess að unnt sé að skipta um starfsvettvang án þess að fórna mikilvægum réttindum sínum. Einnig er stuðlað að eðlilegum sveigjanleika og frelsi einstaklingsins til þess að velja sér og skipta um starfsvettvang eftir því sem hugur stendur til.

Frumvarpið er jafnframt einn af mikilvægum og nauðsynlegum áföngum á þeirri vegferð að svokallað SALEK-samkomulag á vinnumarkaði verði að veruleika. Í því felst að allir helstu aðilar á vinnumarkaði eiga með sér samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Samkomulaginu er ætlað að stuðla að betri undirbúningi og vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Einkum er horft til reynslu annarra norrænna ríkja í þeim efnum. Markmiðið með að hrinda SALEK í framkvæmd er að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Í mínum huga er SALEK ákaflega mikilvæg forsenda fyrir því að okkur takist að ná markmiðum um lága vexti, stöðugt gengi og stígandi kaupmátt sem grundvallast á verðmætasköpun í samfélaginu.

Af sama meiði er frumvarpið um kjararáð sem einnig kemur til afgreiðslu hér í þinginu. Það er mikilvægt að ákvarðanir þess séu grundvallaðar á sömu forsendum og lögmálum og innan ramma samstarfs á borð við SALEK. Allt tengist þetta svo saman í því mikilvæga verkefni að endurskoða peningastefnu landsins og stöðu gjaldmiðils okkar. Á að festa krónuna við annan gjaldmiðil, t.d. með myntráði eins og við hjá Viðreisn höfum talað fyrir, eða hreinlega að taka upp annan gjaldmiðil, svo sem evru, og þá í tengslum við inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Það er ekki liðinn áratugur frá hruni. Þann tíma og eftirköst hrunsins langar fæsta til að upplifa að nýju. Hér skal því ekki spáð að annað slíkt sé í farvatninu og verður vonandi aldrei. Margt er hins vegar hægt að gera til þess að draga úr líkum á að annað hrun verði og um leið draga verulega úr þeim miklu sveiflum sem einkenna atvinnulíf okkar. Sveiflurnar rugla alla hluti og gera öllum erfitt fyrir á endanum. Gott dæmi er hve gengi krónunnar um þessar mundir gerir útflutningsgreinum erfitt fyrir, svo sem sjávarútvegi, svo ekki sé minnst á vaxtarsprota í nýsköpunargeiranum.

Forsenda þess að við getum byggt upp gott samfélag, aukið verðmætasköpun og fundið vel menntuðu fólki starfsvettvang við hæfi er að ná tökum á efnahagsmálum og skapa hér eðlilegan stöðugleika.

Frú forseti. Hér að framan hef ég tæpt á nokkrum atriðum sem skipta miklu máli á komandi misserum og árum. Drepið hefur verið á samræmingu lífeyrisréttindanna, SALEK-samkomulagið, kjararáð, peningastefnu, gjaldmiðil og vexti. Allt eru þetta viðfangsefni sem þingið verður að fjalla um og horfa á í víðu samhengi. Öll eru þessi mál bitar í sama púsli og heildarmyndin verður hvorki skýr né augnayndi nema allir bitar finnist og rati á réttan stað.

Nú höfum við einstakt tækifæri til að koma þessum bita, um lífeyrisréttindin, á sinn stað. Vonandi tekst okkur það.