146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem ég hef áður mælt fyrir. Það er reyndar með nokkrum breytingum. Þegar ég lagði málið fram síðast þá hafði sá úrskurður sem vísað er til ekki fallið og frumvarpið var ekki sett fram í samhengi við hækkanir á kjörum þjóðkjörinna fulltrúa heldur vegna þess sem ég hef farið yfir í mínu máli að ég tel að mikilvægt að stórfækka þeim sem heyra undir ráðið. En m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem nýverið hafa verið gerðar þá bæti ég í frumvarpið og þeir sem að því standa ákvæðum um að það þurfi aukið gegnsæi í ákvörðun kjararáðs, það þurfi betri og meiri rökstuðning, að ákvarðanir skuli teknar með reglubundnum hætti og síðan eru ákvæði í frumvarpinu sem snúa að því að kjararáð geti ákveðið að fylgja heildarsamningum um þróun kjaramála á vinnumarkaði.

Það sem mér finnst hv. þingmaður vera að kalla eftir er að hér sé á sama tíma tekin einhver ákvörðun um að vinda ofan af niðurstöðu kjararáðs. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég legg það ekki til. Ég er ekki að leggja til að við förum inn í ákvarðanir lögbundins úrskurðaraðila um kjör þeirra sem ekki geta samið um starfskjör sín. Ég færði fyrir því rök. En ég benti líka á að þingið hefur önnur úrræði til þess að skoða þau kjör í heildarsamhengi hlutanna. Þar má vísa til, svo dæmi sé tekið, álagsgreiðslna. Það er líka hægt að horfa á það hvaða starfskostnað ríkið endurgreiðir þjóðkjörnum fulltrúum o.s.frv. Þetta þarf allt að fara mjög vandlega yfir. En ef er verið að kalla eftir því að þar fyrir utan sé lagt til að síðasti úrskurðurinn sé felldur niður eða einhverjar aðrar breytingar gerðar á honum þá er ég ekki að leggja það til.