146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og fram kom í andsvörum við hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson er ekki megintilgangur þessa frumvarps að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin varðandi hættu á upplausn á vinnumarkaði, eins og heildarsamtök á vinnumarkaði nefna. Þetta frumvarp á ekki að bregðast við því. Hæstv. ráðherra nefnir einhverja aðra þætti sem hægt væri að gera en frumvarp gerir það ekki, enda kemur fram í frumvarpinu sjálfu að megintilgangurinn sé að fækka þeim sem heyra undir kjararáð.

En það væri kannski samt sem áður hægt að láta frumvarpið bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Kjararáð gæti, þrátt fyrir lagaheimildir, þrátt fyrir greinargerðina með lögunum eins og þau standa, þ.e. að það megi ekki fara út fyrir þann ramma sem settur er varðandi almenna launaþróun á vinnumarkaði, fest það einhvern veginn betur í þessu frumvarpi. Það er ekki gert hér en það er hægt að gera það. Mér heyrðist ráðherra vera opinn fyrir því að skoða það. Það er nokkuð sem á þá eftir að gera í meðförum þingsins.

Rekjum þann vanda sem upp er kominn með ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna um 21% umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði samkvæmt tölum frá Samtökum atvinnulífsins — það var gert á kjördag — og skoðum hvernig það er til komið, hvaða heimildir eru í lögum, hvernig kjararáð rökstyður þær ákvarðanir sem það tekur þannig að við getum lært af því. Hugsanlega væri ákvæði sett í frumvarpið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Við hljótum öll að vilja það. Það kemur skýrt fram í lögunum að markmiðið með því að setja ramma varðandi launaþróun á vinnumarkaði, að ákvarðanir kjararáðs fari ekki út fyrir hann, sé að minnka hættuna á því að þær hafi mikil áhrif kjarasamninga þorra launafólks og raski þar af leiðandi efnahagsstöðugleikanum. Það hljóta allir þingmenn að vera sammála um að það er markmiðið sem við ættum að halda okkur við og reyna að festa betur í sessi.

Hvað gerðist? Kjararáð sendi forsætisnefnd erindi fyrir ári síðan, samkvæmt lögunum um það, þar sem spurt var: Hvað finnst ykkur um að fá launahækkun? Forsætisnefnd svarar — ég hef séð þessar fundargerðir — að það sé kannski kominn tími til að fara að skoða hækkanir en hún vilji samt ekki skipta sér neitt frekar af því. Það er það sem fram kemur í fundargerð forsætisnefndar. Það eina sem nefnt er um kjararáð í fundargerðum forsætisnefndar í haust er þegar forsætisnefnd fundar, hún fer árlega út á land og fundar. Þá er einn nefndarmaður þar sem spyr: Þurfum við ekki eitthvað að fara að tala við kjararáð? En hv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, segir: Við ætlum ekkert að skipta okkur af því.

Þetta er það eina sem þingmenn vissu. Þingmenn vissu fyrir ári síðan að það ætti að koma hækkun. Þeir vissu ekki hvenær hún yrði. Öll umræða um að þeir hafi vitað það er ómálefnaleg.

Ári síðar tekur kjararáð ákvörðun um þessa miklu hækkun, sem er langt út fyrir þann ramma sem því er settur. Hvað segir í lögunum um kjararáð? Þeir fara yfir það í úrskurði sínum þannig að þeir þekkja þessi lög. Þeir gera í kringum 20 úrskurði á hverju einasta ári. Þeir eru með mjög ítarlega útskýringu á stjórnskipunarlögum sem varða þá aðila sem þeir taka ákvarðanir um. Þeir þekkja þessi lög. Þar segja þeir í IV. kafla í úrskurði sínum — og fólk getur farið á kjararad.is, undir úrskurði og fundið þetta þar — með leyfi forseta:

„Í 8. gr. laga um kjararáð segir, að það skuli við úrlausn mála gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður, og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.“

Það er innra og ytra samræmi. Kjararáð er með svolitla tölu um það í úrskurði sínum. Samkvæmt hinu innra samræmi gætir kjararáð að því í ákvörðunum sínum, þ.e. þegar það hækkar laun einhverra aðila sem heyra undir kjararáð, að horfa jafnframt til ákvarðana um aðra aðila sem það hefur hækkað laun hjá, hvort sem það eru prestar eða dómarar eða aðrir. Ytra samræmið er þá samræmið milli þeirra ábyrgðarstaðna sem þeir taka ákvarðanir um, að það sé samræmi milli launa fyrir störf í samfélaginu sem hægt væri að telja sambærileg á einhverjum forsendum.

Aftur á móti nefnir kjararáð lykilatriði í einni setningu sem ramma má inn — og já, það á að gæta að þessum tveimur atriðum, innra samræmi og ytra samræmi — en í þeim ákvörðunum má það ekki fara út fyrir rammann, það má ekki skapa óstöðugleika á vinnumarkaði. Og þeir nefna það í einni setningu, með leyfi forseta: „Þá skuli kjararáð ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ — Ekkert meira, engar frekari útskýringar. Ekkert. Enda talaði kjararáð hvorki við ASÍ né SA um ákvörðun sína: Hei, gæti það verið að þessi ákvörðun okkar um að hækka laun þingmanna um 21% umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði, stofni kjarasamningum þorra launafólks í hættu. Er það möguleiki? Þeir nefna ekkert um það. Ekkert. Er ekki bara sagt að þá skuli kjararáð ætíð taka tillit til 2. mgr. 8. gr. laganna? Taka tillit til, hvað þýðir það? Bara svona: tökum tillit til þess? Nei, það þýðir ekki það. Þetta er mjög sterk setning þegar maður skoðar hana í greinargerðinni. Og fólk getur skoðað lög um kjararáð, bara gúglað „lög um kjararáð“, farið inn í lögin, fundið feril málsins, sem er vinstra megin, farið inn í málið, og þá fylgir greinargerð frá því þegar frumvarpið var lagt fram fyrst sem útskýrir hvað er í raun verið að segja í lagatextanum. Hvað kemur fram í þeirri útskýringu? Þegar lögin eru sett kemur fram í þeirri útskýringu sem fylgir í greinargerð hvað það þýðir að taka tillit til launaþróunar á vinnumarkaði. Þá eru útskýringar með frumvarpinu, sem er núna lög um kjararáð, þarna er verið að sameina Kjaradóm og kjaranefnd í kjararáð. Þegar ég segi Kjaradómur er það dómurinn sem var varðandi þessi ákvæði, þeir færa þá varnagla inn í lögin að ekki megi fara út fyrir rammann og skapa hættu á vinnumarkaði. Ákvarðanir kjararáðs mega það ekki. Það er rammi um það. Í 2. málslið 5. gr. gildandi laga er ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 120/1992, er þetta ákvæði skýrt þannig, og það er alveg skýrt hvað það þýðir, að það sé hugsað til þess að, með leyfi forseta:

„… ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.“

Það er ekki þannig að ákvarðanir þeirra gangi gegn lögunum, að ákvarðanir þeirra hafa orsakað þetta, hafi raskað kjarasamningum, en þetta skapar hættu á því. Nú hafa heildarsamtök bæði launafólks og launagreiðenda á vinnumarkaði sagt alveg skýrt að ákvörðun kjararáðs skapi upplausn á vinnumarkaði, skapi hættu á upplausn á vinnumarkaði. Bæði heildarsamtökin á vinnumarkaði nota sömu orðin; upplausn á vinnumarkaði. Og bæði segja þau að Alþingi verði að gera eitthvað í málinu. Samtök atvinnulífsins nefna að Alþingi eigi að hafna ákvörðun kjararáðs og ASÍ segir að Alþingi eigi að snúa henni við.

Förum aftur inn í greinargerðina. Hvað þýðir það að taka tillit til launaþróunar í ákvörðunum sínum? Með leyfi forseta:

„Jafnframt felur ákvæðið í sér að Kjaradómi ber, standi þannig á, að taka tillit til launa- og kjarabreytinga á vinnumarkaði sem stafa af batnandi afkomu þjóðarbúsins, þó svo breytingarnar eigi sér ekki stoð í kjarasamningum. Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana.“

Þið munið að það er verið að færa þetta frá Kjaradómi inn í kjararáð sem „ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana“.

Það er hættan sem við erum m.a. að skapa núna. Þegar kennarar segja upp störfum vegna þessarar ákvörðunar og eru að fara að semja um sín laun getur þetta verið mótandi, sem má ekki samkvæmt lögunum.

Aftur, með leyfi forseta:

„Þessu ákvæði var með öðrum orðum ætlað að vera eins konar almenn umgjörð um ákvarðanir Kjaradóms sem byggðar væru á viðleitni til þess að tryggja bæði innra og ytra samræmi í kjaraákvörðunum Kjaradóms.“

Sjáið. Það er meira að segja talað um það í greinargerðinni sem sérstaka umgjörð um hinar ákvarðanirnar, innra og ytra samræmið.

Í frumvarpinu um kjararáð sem hér er gerð grein fyrir er fylgt sömu stefnu og hún reyndar ítrekuð með því að í síðari málsgrein 8. gr. frumvarpsins er kveðið enn fastar að orði um þetta efni en þar segir: „Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ Til þess að leggja áherslu á að hér er um almenna viðmiðun að ræða en ekki einvörðungu vísað til sambærilegra starfa á vinnumarkaðnum er hér talað um almenna þróun á vinnumarkaði auk þess sem það er áréttað að þessa sjónarmiðs skuli ætíð gætt. Og það er skáletrað.

Þetta er alveg ljóst. Kjararáði var gert að taka ákvarðanir með innra og ytra samræmi en alltaf innan ramma, innan umgjarðar, og fara ekki fram úr almennri launaþróun að því marki að það skapi hættu á að stofna kjarasamningum þorra launafólks í hættu og vera stefnumótandi hvað varðar launakjör á markaði. En það er það sem kjararáð hefur gert núna. Samkvæmt heildarsamtökum á vinnumarkaði, bæði launagreiðenda og launþega, er það það sem kjararáð hefur gert. Þessi ákvörðun hefur skapað hættu á upplausn á vinnumarkaði. Alþingi getur ekki sagt pass við svona kringumstæður. Ítrekað er verið að setja lög á verkföll fólks, sem er farið að nýta rétt sinn, af því að það getur valdið efnahagsóstöðugleika. Ítrekað. Samkvæmt lögum fer kjararáð með ákvörðun um að hækka laun þingmanna, sem skapar mögulega upplausn á vinnumarkaði og þar af leiðandi efnahagslegan óstöðugleika. Alþingi getur ekki sagt pass við svona kringumstæður. Það væri mjög óábyrgt. Já, það er slæmt að Alþingi sýsli með laun sín. Meginreglan á að vera að Alþingi á ekki að sýsla með sín laun. En það eru undantekningar. Ætla menn að segja sú staðreynd að hætta sé á upplausn á vinnumarkaði og efnahagslegum óstöðugleika í kjölfarið réttlæti það ekki að Alþingi grípi inn í?

Alþingi þarf síðan að taka ákvörðun um hvort það ætlar að segja nýskipuðu kjararáði að kveða upp annan úrskurð, eins og Geir H. Haarde fyrirskipaði kjararáði með lögum 2008 eftir að það vildi ekki svara þegar hann sendi því bréf um að lækka aftur laun þingmanna niður fyrir almennu launaþróunina. Alþingi gæti líka brugðist við með einhverjum öðrum hætti þannig að heildarsamtök á vinnumarkaði gætu sagt: Það er ekki lengur hættuástand, ekki lengur hætta á upplausn á vinnumarkaði vegna þessa.

En í frumvarpinu er lágmark, ef við höldum áfram með þá umræðu. Hér verður að binda kjararáð þannig að það geti ekki farið fram úr sér aftur í launahækkunum og skapað þannig mögulega hættu á upplausn á vinnumarkaði. Það er nokkuð sem við getum gert. Svo tökum við hina umræðuna síðar. En Alþingi getur ekki sagt pass þegar hætta er á upplausn á vinnumarkaðnum vegna ákvarðana kjararáðs.