146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

umræða um fjáraukalög.

[10:36]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill af þessu tilefni taka fram að það er að sjálfsögðu ekki ákjósanlegt að þurfa að taka viðamikil mál á dagskrá jafn hratt og hér er lagt til. Því miður dróst það í gær að frumvarpið yrði tilbúið til framlagningar. Vonir stóðu til að hægt yrði að útbýta því um miðjan dag eða síðdegis en það var ekki fyrr en langt var liðið á kvöld sem málið var endanlega tilbúið til útbýtingar. Það gerir að verkum að enn styttri tími gafst fyrir hv. þingmenn að kynna sér innihald þess.

Að sjálfsögðu eru það aðstæðurnar sem okkur eru búnar í þingstörfunum á þessum óvenjulegu tímum sem marka þetta og öllum hv. alþingismönnum ljóst að skammur tími lifir til jóla eða áramóta ef út í það er farið gagnvart öllum þeim viðamiklu verkefnum sem eru í okkar höndum.

Forseti viðurkennir fúslega að þetta er ekki það almenna verklag sem æskilegt væri að viðhafa.