146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. „Loksins, loksins“ voru upphafsorð eins frægasta ritdóms sem skrifaður hefur verið á Íslandi. Kristján Albertsson, 1927, sá þá efnivið í stórskáld í Halldóri Laxness þegar hann gaf út Vefarann mikla frá Kasmír. Ég get auðvitað notað loksins, loksins um vaxtalækkun Seðlabankans en kannski ekki af sömu sannfæringu og Kristján Albertsson um þær vonir sem hann sá bundnar í Halldóri Laxness. Ég reikna ekki með að bankinn muni sýna mikla snilli í stjórnun peningamála í framtíðinni en hann er þó hægt og bítandi að stíga fyrstu skrefin, því miður hænufet, í rétta átt. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur sem betur fer áttað sig á hagstæðari samsetningu hagvaxtarins, hefur áttað sig á því að hann er traustur, byggður á og drifinn áfram af útflutningi og atvinnuvegafjárfestingu en ekki einkaneyslu. Þetta er ekki skuldsettur hagvöxtur, þetta er hagvöxtur hins nýja hagkerfis sem stendur styrkari stoðum en við höfum áður þekkt. Við njótum þess með metafgangi á viðskiptajöfnuði og í nær þrjú ár hefur verðbólga verið undir verðbólgumarkmiðum.

En þrátt fyrir vaxtalækkunina í gær er vert að vekja athygli þingheims á að stýrivextir hér á Íslandi eru tíu sinnum hærri en í Noregi og Bandaríkjunum og Noregur er okkar helsta samkeppnisland þegar kemur að útflutningi sjávarafurða.(Forseti hringir.) Skert samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega endurspeglast í hávaxtastefnu Seðlabankans (Forseti hringir.) sem er í raun ekkert annað en dulin skattheimta á íslensk heimili og íslensk fyrirtæki.


Efnisorð er vísa í ræðuna