146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í umræðum á Alþingi hefur borið á því að ræðumenn halda því fram að fimm ára ríkisfjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar setji hóflegum hugmyndum um auknar tekjuöflun 2017 skýrar skorður, rétt eins og áætlun einnar ríkisstjórnar bindi hendur þeirrar sem við tekur þegar sú fyrri missir meiri hluta eða bindi jafnvel hendur þingsins. Það er augljóslega rangt nú þegar fyrri þingmeirihluti hefur raskast og Alþingi hefur auk þess fjárlagavaldið þegar allt kemur til alls. Þessi afstaða kom t.d. fram síðastliðinn þriðjudag í Kastljóssþætti RÚV hjá hv. þm. og varaformanni Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, og hún hefur heyrst í þingræðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem fjalla um fjárlagafrumvarpið. Eru þessir flokkar sammála um áherslur í ríkisfjármálum, ber að skilja það svo?

Herra forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnar er pólitísk hagfræði og lýtur sömu örlögum og önnur meginstefnuplögg hvort sem er til vinstri, hægri eða við miðju stjórnmálanna. Hinu má ekki gleyma að tilgangur fimm ára ríkisfjármálaáætlunar er m.a. sá að gera fjárlagavinnu hvers árs skilvirkari en ella og auka ábyrga afstöðu til allra þátta fjárlagafrumvarpsins. Það merkir ekki að nýtt þing og nýr meiri hluti að baki nýrrar ríkisstjórnar, væri hún til hér og nú, geti ekki aflað aukatekna til samfélagsþjónustunnar með ábyrgum hætti og þar með farið út fyrir ramma sem fallin stjórn setti sér, styðji Alþingi það skref, skref sem sumir hv. þingmenn reyna meðvitað að láta líta út sem svo að það sé brot á heilagri áætlun. Varla er fáfræði um að kenna en kannski misskilningi í einhverju tilviki. Hver ný ríkisstjórn setur sér sína fimm ára ríkisfjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál, það vitum við, og hún á að vita (Forseti hringir.) að hún er hennar en ekki annarrar ríkisstjórnar eða nýs þingmeirihluta.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna