146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í nærri sex ár. Hið hryllilega ástand í Sýrlandi, og þá sérstaklega það umsátursástand sem hefur ríkt í borginni Aleppó undanfarin ár og mánuði, hefur sýnt sig líkt og öll stríð og hernaður að hafa bitnað hræðilega á almennum borgurum, þá helst börnum og konum. Um 5 milljónir Sýrlendinga eru nú skráðar sem flóttamenn og 6,5 milljónir eru á vergangi innan síns eigin lands.

Atburðir undanfarna daga þar sem stjórnarher Sýrlands hefur náð borginni Aleppó á sitt vald hafa valdið óhug um allan heim. Viðbrögð ráðamanna í ríkjum heims eru margs konar og helgast oftast af pólitískri afstöðu og pólitískum línum. Voðaverkunum og stríðinu í Sýrlandi hefur verið mótmælt margsinnis víða um heim af almenningi í borgum á borð við Hamborg í Þýskalandi, Sarajevó í Bosníu og í borginni Rabat í Marokkó. Mótmæli og samstöðufundur er fyrirhugaður hér á Austurvelli á laugardaginn kemur. Ég held að við öll sem hér sitjum inni getum tekið undir það ákall að óska eftir friði í Sýrlandi líkt og víðar.

Þá vil ég líka beina sjónum mínum og máli að þeirri starfsstjórn sem við búum við og þeirri pólitísku stöðu á þinginu sem birtist í því að aðeins eru tvær þingnefndir skipaðar, og það til bráðabirgða, og því enginn vettvangur fyrir okkur þingmenn til að ræða aðkallandi utanríkismál, óska skýringa hjá starfandi utanríkisráðherra og starfsmönnum utanríkisráðuneytisins þegar kemur að stöðu mála á alþjóðavettvangi.

Þurfa íslenskir þingmenn sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar ekki bæði að fá yfirlit og fá að ræða og spyrja um nýjustu vendingar þegar um alþjóðapólitísk málefni af þessari stærðargráðu er að ræða líkt og stríðsástandið í Sýrlandi og nýjustu vendingar í þeim málum?

Hversu skýr er afstaða íslenskra stjórnvalda til stríðsins í Sýrlandi? Og hvernig geta íslensk stjórnvöld beitt sér á alþjóðavettvangi þegar kemur að þeim málum? (Forseti hringir.) Þetta vil ég a.m.k. fá að vita og ræða og spyrja starfandi utanríkisráðherra og vildi vekja athygli á því að hér (Forseti hringir.) þyrfti að vera vettvangur fyrir okkur þingmenn til að taka upp mál af þessum toga.


Efnisorð er vísa í ræðuna