146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér mikinn mun á orkukostnaði á landinu. Á vef Byggðastofnunar nú nýlega kom fram samantekt í þessu máli. Byggðastofnun fékk Orkustofnun til þess að gera úttekt á þeim samanburði. Þar koma fram sláandi upplýsingar sem varða marga á landsbyggðinni sem búa við háan húshitunarkostnað. Það kemur fram að það er meiri munur á húshitunarkostnaði á landinu en á raforkukostnaðinum. Það munar t.d. 287% á húshitunarkostnaði heimila á Seltjarnarnesi og í dreifbýli á Vestfjörðum. Það er gífurlega hár munur. Rafmagnskostnaður í dreifbýli er 52% hærri en lægsta verð í þéttbýli og munurinn hefur aukist frá því í fyrra þótt við hefðum talið okkur hér vera að reyna að ná því eitthvað niður með auknum fjármunum til að að jafna dreifingu á raforku.

Miðað við 140 fermetra hús er húshitunarkostnaður á ári 291 þús. kr. á orkusvæði Orkubús Vestfjarða en 123 þús. kr. á Seltjarnarnesi. Sá munur er 135%. Það hlýtur að ýta við okkur þingmönnum að gera betur.

Sem betur fer búa yfir 90% þjóðarinnar við húshitun með heitu vatni. Við þurfum að horfa til þeirra sem ekki hafa þá auðlind við höndina. Heildarkostnaður vegna húshitunar á heimili á Hólmavík er 265 þús. kr. á ári. Það er hæsti kostnaður á landinu.

Ég lít þannig á að jarðvarminn sé sameign okkar, þjóðarinnar, alveg eins og fiskveiðiauðlindin í sjónum sem allir landsmenn vilja fá arðinn af. Er ekki rétt að við horfum á þetta með sama hætti (Forseti hringir.) og jöfnum orkuverð í landinu og göngum alla leið í þeim efnum? Við höfum tækifæri til þess í fjárlögum.


Efnisorð er vísa í ræðuna