146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Út af umræðu hér um stöðu ríkissjóðs þá held ég að það sé ekki nokkur einasta leið að lýsa henni sem bágri. Hins vegar væri mjög æskilegt að við skulduðum minna, en þannig verður það ekki nema við borgum upp skuldir ríkissjóðs, enn eru vaxtagjöldin þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Það var ekkert leyndarmál og allir vissu sem fylgdust með umræðum að samgönguáætlun var ekki fjármögnuð. Það eru engar nýjar fréttir.

Virðulegi forseti. Við þurfum að líta til fleiri þátta. Það er ekki sjálfgefið að við fáum þær tekjur sem við höfum séð koma í ríkissjóð. Það gerist ekki öðruvísi en með því að hafa sterkt og öflugt atvinnulíf. Það sem hefur breyst á undanförnum árum er að ferðaþjónustan er orðin sú atvinnugrein sem drífur áfram hagvöxtinn í landinu og gert það að verkum að störfum hefur fjölgað jafn mikið og raun ber vitni. Sú grein mun á næsta ári skaffa meiri gjaldeyristekjur en stóriðjan og sjávarútvegurinn samanlagt.

Núna horfum við fram á að gengi krónunnar er að styrkjast. Það eru í sjálfu sér góðar ástæður fyrir því en það getur haft mjög neikvæðar afleiðingar á samkeppnishæfni útflutningsgreinanna. Mér finnst við þurfa að líta til þess. Við þurfum líka að styrkja lífeyriskerfi okkar. Þá er ég að vísa til þess að flestir landsmenn eiga hús sín hér, þeir stunda atvinnu sína hér og það er ekki skynsamlegt að vera með öll eggin í sömu körfunni, að hafa sparnaðinn þar líka. Við horfum fram á besta tækifæri sem við höfum séð mjög lengi til þess að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti erlendis. Ef það eru ekki önnur ráð til þess en að við breytum lögum þannig að við setjum gólf á fjárfestingar og skyldum þá þar af leiðandi til þess að fjárfesta meira erlendis þá eigum við að skoða það af fullri alvöru. Tíminn er núna.


Efnisorð er vísa í ræðuna