146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Mér er það mikill heiður að standa hér í dag, í fyrsta sinn í pontu sem kjörinn þingmaður af erlendu bergi brotinn, sem hefur áunnið sér íslenskan ríkisborgararétt. Ég segi það með þakklæti, stolti og virðingu. Ég tilheyri minnihlutahópi sem hefur nú réttilega fengið málsvara á Alþingi.

Ég er lánsöm að búa á Íslandi þar sem mannréttindi, jafnrétti og lýðræði eru gildi sem við höldum hátt á lofti. Það þýðir auðvitað að innflytjendur hafa sömu réttindi og standa jafnfætis Íslendingum hvað varðar tækifæri á vinnumarkaði, í skólakerfinu og almennt í samfélaginu.

Sem leikskólastjóri fékk ég þann heiður að þjóna mörgum fjölskyldum sem voru af erlendu bergi brotnar. Í því starfi upplifði ég að ekki eru allir á Íslandi jafnir. Allt of oft heyrum við um mansal, mismunun og brot á réttindum innflytjenda. Á sama tíma er talað um að það þurfi „erlent vinnuafl“. Það er alls staðar skortur á vinnuafli í samfélaginu en allt of fáir útlendingar sem fá erlenda menntun sína metna til fulls. Þó að við innflytjendur séum einungis 10% af samfélaginu hér erum við nógu stór hópur til að gera gagn og hafa áhrif á þróun samfélagsins.

Í menntun og menntunarkerfi felast tækifæri til að jafna stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi. Þar finnst þó einnig mismunun á milli innflytjenda og innfæddra. Börnum sem tala fleiri en eitt tungumál er ekki boðið að efla móðurmál sitt samhliða íslensku með þeim afleiðingum að þeirra helsti styrkleiki hefur lítið sem ekkert gildi í íslenska skólakerfinu og brottfall nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir er töluvert hærra en íslenskra nemenda.

Það er mín bjartasta von að í starfi mínu á Alþingi fái ég tækifæri til að greiða leið fyrir fleiri innflytjendur til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Við þurfum á því að halda og þannig búum við til betra samfélag.


Efnisorð er vísa í ræðuna