146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[11:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar við upphaf þessa þings að leggja áherslu á samstarf og samvinnu hér á þingi. Því er við hæfi að byrja á því að óska hv. þingmönnum Framsóknarflokksins til hamingju með 100 ára afmæli flokksins og gott boð, takk fyrir það.

Við þingsetningu vakti forseti lýðveldisins athygli á því að trausti til þessarar stofnunar væri ábótavant og benti hann á að Íslendingar dæmdu alþingismenn af verkum þeirra, framkomu og starfsháttum. Ég er í engum vafa um að bæði þeir sem kjörnir voru í síðustu kosningum til þings svo og þeir sem setið hafa hér á undan okkur hafa allir haft þá sýn og það markmið að vinna að góðum málum með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég trúi því líka og veit reyndar að umræðan í þessum sal gefur ekki endilega vísbendingu um hvernig öllu starfi þingsins er háttað. Ég hef væntingar til þess að starfið í nefndum þingsins verði markvisst og lausnamiðað og hlakka mikið til þeirrar vinnu. Ég hlakka til að takast á við þau störf sem í þingmennskunni felast og vonast til þess að eiga ánægjulegt samstarf við alla þingmenn.

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að við öll, þessir 63 hv. þingmenn, sameinumst um það mikilvæga verkefni að auka traust og trú á þinginu. Til þess er nauðsynlegt að mínu mati að breyta umræðuhefðinni sem hér hefur ríkt kannski aðeins of lengi. Í kosningabaráttunni svo og núna á fyrstu mánuðum þessa þings hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta fjöldann allan af fólki sem hefur skoðun á störfum okkar. Enginn hefur tjáð mér þá skoðun sína að þörf sé á að skerpa línur milli flokka, að pólitískur ágreiningur og áherslur þurfi að fá meira vægi á þinginu. Flestir, ef ekki allir, sem ég hef rætt við eru á þeirri skoðun að leggja þurfi áherslu á aukið samstarf og bætt vinnubrögð.

Eða eins og ein mæt kona sagði við mig: Hættið að rífast og farið að vinna.


Efnisorð er vísa í ræðuna