146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

ástandið í Sýrlandi.

[11:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig vegna ástandsins í Sýrlandi. Það er skelfilegt. Við erum auðvitað að vakta stöðuna hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég vildi segja í þessum ræðustól að það er einkum þrennt sem íslensk stjórnvöld hafa verið að gera vegna þessa. Við höfum í fyrsta lagi verið að beita okkur á alþjóðavettvangi. Við höfum gagnrýnt störf öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna harðlega vegna þess að það sýnir sig í þessu máli að neitunarvaldið virkar hreinlega ekki. Þetta stríð hefur nú geisað í fimm ár og ástandið er gersamlega óafsakanlegt. Þar hafa fulltrúar okkar, fastanefndin, komið málflutningi okkar vel til skila.

Einnig gerðist það síðastliðinn föstudag, sem er ansi óvenjulegt, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða þar sem kallað var eftir því að vopn yrðu lögð niður og árásum á almenna borgara tafarlaust hætt. Norðurlöndin fluttu sameiginlega ræðu á allsherjarþinginu til að mótmæla þessu harðlega.

Í öðru lagi hafa stjórnvöld aukið umtalsvert fjármagn til mannúðaraðstoðar á svæðinu í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Á síðasta ári voru veittir tveir milljarðar vegna flóttamannavandans í Sýrlandi og við höfum í hyggju að auka fjármagn enn frekar en gera það í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna þarna á svæðinu.

Í þriðja lagi höfum við Íslendingar tekið á móti sýrlenskum flóttamönnum, tókum við rúmlega 40 manns fyrr á þessu ári og höfum í hyggju að taka á móti um 50 manna hópi í byrjun næsta árs.

Ísland er svo sannarlega að láta til sín taka hvað þetta mál varðar þótt alltaf sé hægt að gera betur.