146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2016 sem er að finna á þskj. 10. Með frumvarpinu er endurskoðuð tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða á árinu 2016 lagðar fyrir Alþingi. Rétt er að geta þess að stærstu útgjaldamál frumvarpsins snúa að lífeyrisskuldbindingum sem er annars vegar einskiptisuppgjör vegna A-deildar LSR, samanber frumvarp til laga sem ég mælti fyrir á þriðjudaginn var, og hins vegar yfirtaka ríkissjóðs á skuldbindingum hjúkrunarheimila og ýmissa samtaka í velferðarþjónustu.

Tillögurnar í frumvarpinu taka eftir atvikum að öðru leyti mið af nýrri lagasetningu, óvissum og ófyrirséðum útgjöldum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um útgjöld vegna brýnna verkefna sem hafa komið fram frá því að fjáraukalög voru samþykkt í október sl.

Í lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, er mörkuð skýr stefna um hlutverk og efni fjáraukalaga. Gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Við undirbúning fjáraukalagafrumvarpsins hefur verið lögð áhersla á að standa að málum í samræmi við hlutverk fjáraukalaga eins og það er skilgreint í fjárreiðulögum þannig að í því felist fyrst og fremst tillögur um ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjaldatilefni.

Gengið er út frá því að erindi um aðrar fjárhagsráðstafanir verði ýmist áfram á ábyrgð viðkomandi ráðuneyta til úrlausnar eða komi eftir atvikum til umfjöllunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár, enda þurfi að leysa úr slíkum málum til frambúðar en ekki aðeins að velta þeim áfram tímabundið með einskiptisfjárheimild. Þannig verði áfram gætt viðunandi aðhalds í fjármálastjórn ríkisins og haldið áfram að tryggja að frávik í fjáraukalögum haldist innan viðunandi vikmarka.

Virðulegi forseti. Þetta fjáraukalagafrumvarp er lagt fram við óhefðbundnar aðstæður. Það er í fyrsta lagi lagt fram af starfsstjórn sem situr tímabundið. Í öðru lagi er frumvarpið seinna fjáraukalagafrumvarp ársins, en áður var lagt fram frumvarp til fjáraukalaga í september sem varð að lögum í október. Í því frumvarpi voru einungis gerðar breytingar á fjárheimildum vegna fárra sértækra og ófyrirséðra útgjaldamála, einkum þeirra sem komið höfðu sérstaklega til umfjöllunar í ríkisstjórn á árinu eða lá fyrir að væru orðnar að áfallinni skuldbindingu. Samtals nam umfang þeirra fjáraukalaga 5,1 milljarði en þar vógu þyngst 1,5 milljarða kr. aukin framlög vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila.

Fyrra frumvarpið var ekki hefðbundið og heildstætt fjáraukalagafrumvarp með endurmati á tekjuáætlun fjárlaga ásamt heildstæðri yfirferð á gjaldahlið með tilheyrandi breytingum á lagagreinum um rekstraryfirlit ríkissjóðs, sjóðstreymi og heimildargreinum ásamt séryfirlitum og ítarlegri greinargerð. Það er því meginmarkmið með þessu frumvarpi að leggja fram heildstætt og hefðbundið fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2016. Þó var í fyrra frumvarpi að finna í almennri umfjöllun í greinargerð eins konar spá um tekjuhliðina út árið en eins og hér hefur verið farið yfir var þar ekki um að ræða heildstætt yfirlit og ekki var heldur verið að breyta lagagreinum.

Ég vil geta þess í framsögu minni að fjáraukalög fyrir árið 2016 verða þau síðustu sem falla undir eldri fjárreiðulög frá því áður en ný lög um opinber fjármál voru samþykkt, sem sagt eldri lög nr. 88/1997, því að nýju lögin taka við að þessu leyti á nýju ári. Ákvæði þeirra laga um hlutverk fjáraukalaga eru áþekk ákvæðum fjárreiðulaga en þó má segja að þar sé kveðið skýrar að orði um þau sjónarmið sem ég fjallaði um hér á undan.

Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um heimildir ráðherra að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins enda sé ekki hægt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum. Með því er átt við heimild ráðuneyta til að millifæra fjárheimildir innan málaflokks innan fjárlagaársins eða með því að nýta svokallaðan varasjóð fyrir viðkomandi málaflokk.

Þetta tvennt, heimildir til að gera breytingar innan málaflokks og síðan varasjóðurinn, á að draga mjög verulega úr þörfinni fyrir fjáraukalagafrumvarp eins og við höfum þekkt það fram til þessa. Það verður sem sagt dregið enn frekar úr umfangi fjáraukalaga frá því sem verið hefur og lögð aukin ábyrgð á ráðuneyti að beita árangursríkri fjármálastjórn í málefnasviðum og málaflokkum sínum.

Þá vík ég að afkomuhorfum ársins 2016. Í gildandi fjárlögum fyrir árið 2016 var þriðja árið í röð gert ráð fyrir afgangi á heildarjöfnuði eða 6,7 milljörðum kr. á rekstrargrunni þegar stöðugleikaframlög eru undanskilin. Þau námu alls 338,9 milljörðum kr. í fjárlögum og að þeim meðtöldum nam afgangurinn þess vegna 345,6 milljörðum kr.

Áætlun um afkomu ríkissjóðs á þessu ári hefur nú verið endurmetin og byggir á uppfærðri tekjuáætlun sem unnin var í tengslum við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017. Þá hafa gjöld ársins einnig verið endurmetin en ég vek athygli á því að í þessu frumvarpi er fjallað um breytingar á gjöldum frá fjárlögum ársins 2016 að viðbættum fjáraukalögum frá október sl.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að frumtekjur aukist um ríflega 90 milljarða kr. en að frumgjöldin aukist um 130,3 milljarða kr. Þá er gert ráð fyrir að vaxtatekjur lækki um liðlega 1 milljarð kr. en á móti er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin lækki um 2,9 milljarða kr. Samtals er því gert ráð fyrir að heildartekjur aukist um 89 milljarða kr. frá áætlun fjárlaga en að heildarfjárheimildir vegna útgjalda hækki um 127,4 milljarða frá áætlun fjárlaga að viðbættum fjáraukalögum síðan í október.

Gangi þetta eftir er gert ráð fyrir að heildarjöfnuður verði 302 milljarðar kr. að meðtöldum stöðugleikaframlögum en að þeim frátöldum verði hann á hinn bóginn neikvæður um 77 milljarða kr.

Stærstur hluti breyttrar afkomu sem rakin hefur verið hér skýrist af óreglulegum og einskiptisbreytingum bæði á tekju- og gjaldahlið. Á tekjuhlið er gert ráð fyrir 40,4 milljarða kr. viðbótartekjum vegna endurmats á reikningshaldslegri meðferð á stöðugleikaframlögum, en í fjárlögum 2016 var gert ráð fyrir að þessi hluti framlaganna yrði færður til tekna á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur frá viðskiptabönkum hækki um 18,7 milljarða kr. þegar frá er talin 4,5 milljarða kr. aukin arðgreiðslu frá Íslandsbanka sem flokkast sem stöðugleikaframlag. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs verði 4,9 milljörðum kr. hærri sem skýrist af hærri arðgreiðslum. Þess ber að geta að fjármagnstekjuskatturinn færist einnig til gjalda og hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Á gjaldahlið í frumvarpinu er þessu til viðbótar gert ráð fyrir 108,5 milljarða kr. einskiptisuppgjöri á A-deild LSR eins og nefnt var hér að framan og þá er einnig gert ráð fyrir 9,5 milljarða kr. einskiptisgjaldfærslu á rekstrargrunni vegna yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimila og ýmissa samtaka sem sinna heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Þegar horft er fram hjá þessum óreglubundnu breytingum er áætlað að afgangur á frumjöfnuði verði jákvæður um 77 milljarða, þ.e. 3,2% af vergri landsframleiðslu. Að meðtöldum 55 milljarða halla á vaxtajöfnuði er gert ráð fyrir að afgangur á heildarjöfnuði verði liðlega 22 milljarðar sem svarar til 0,9% af vergri landsframleiðslu. Það er tæplega 16 milljarða bati í rekstri ríkissjóðs frá gildandi fjárlögum.

Samkvæmt frumvarpinu aukast tekjur ríkissjóðs eins og fyrr segir um 89 milljarða kr. frá gildandi fjárlögum eða sem nemur 9% frá áætlun fjárlaga. Gert er ráð fyrir að vaxtatekjur lækki um 1 milljarð þannig að frumtekjur aukast um rúmlega 90 milljarða kr.

Í fyrsta lagi aukast skatttekjur um 29,2 milljarða frá forsendum fjárlaga. Þar má nefna að skattur á tekjur og hagnað einstaklinga eykst um 12,3 milljarða vegna hagstæðari framvindu efnahagsmála á yfirstandandi ári en spár gáfu til kynna í forsendum fjárlaga. Efnahagsframvindan á árinu 2016 hefur verið talsvert betri en fyrirséð var við gerð tekjuáætlunar fjárlaga. Umsvif í hagkerfinu hafa því verið meiri og innheimta skatta það sem af er ári er í takt við það. Þá lækka skattar á tekjur og hagnað lögaðila um 1,4 milljarða kr. og skýrist m.a. af því að tölur ríkisreiknings fyrir árið 2015 voru lægri en búist var við sem hefur óbein áhrif til lækkunar á mati á tekjuskatti lögaðila á þessu ári. Einnig lækkar sérstakur skattur á lögaðila um 1 milljarð sem skýrist að mestu af endurmati á stofni skattsins.

Í öðru lagi má nefna að arðgreiðslur í ríkissjóð aukast um 18,7 milljarða, að frátöldum hliðaráhrifum af stöðugleikaframlögum, umfram áætlun fjárlaga, en um er að ræða hærri arðgreiðslur frá viðskiptabönkunum, einkum Landsbanka Íslands og Íslandsbanka en á móti er ljóst að ekkert verður af arðgreiðslu frá Seðlabanka Íslands eins og áætlunin gerði ráð fyrir.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að stöðugleikaframlög verði 40,4 milljörðum hærri en reiknað hafði verið með í forsendum fjárlaga en þau færast á árinu 2016 en ekki á árinu 2017 eins og áður hafði verið gert ráð fyrir varðandi þennan þátt stöðugleikaframlaganna. En 4,5 milljarðar eru þar af vegna arðgreiðslu frá Íslandsbanka.

Í fjórða lagi nema aðrar smærri breytingar á heildartekjum 700 millj. kr. til hækkunar.

Útgjöld ríkissjóðs hafa einnig verið endurskoðuð í ljósi breyttra forsendna og þróunar efnahagsmála á árinu. Tekið er mið af rauntölum reikningshaldsins fyrstu níu mánuði ársins og spá um þróun útgjalda til áramóta, auk ýmissa fyrirliggjandi ákvarðana stjórnvalda á árinu.

Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2016 verði auknar um 127,4 milljarða kr. en það svarar til 18% hækkunar á heildarútgjöldum gildandi fjárlaga að meðtöldum breytingum sem gerðar voru í fyrri fjáraukalögum.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að útgjaldaskuldbindingar á yfirstandandi ári aukist sem nemur 118 milljörðum kr. sem rekja má til einskiptisuppgjörs vegna nýs skipulags A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og yfirtöku lífeyrisskuldbindinga. Nýtt skipulag A-deildar LSR hefur í för með sér að ríkissjóður mun þurfa að leggja til 108,5 milljarða einskiptisframlag á þessu ári í sérstakan lífeyrisaukasjóð.

Markmið breytinganna er að aðlaga lífeyriskerfi opinberra starfsmanna að lífeyriskerfi almenna vinnumarkaðarins. Í því felst að gert er ráð fyrir að tekin verði upp aldurstengd ávinnsla lífeyrisréttinda í stað jafnrar ávinnslu eins og verið hefur án þess þó að réttindi eldri starfsmanna skerðist. Að auki er í frumvarpinu gert ráð fyrir 9,5 milljarða kr. einskiptisframlagi vegna yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Annars vegar er um að ræða 5,9 milljarða kr. lífeyrisskuldbindingu ýmissa félagasamtaka sem veita heilbrigðis- og/eða félagsþjónustu og hins vegar 3,6 milljarða kr. lífeyrisskuldbindingu hjúkrunarheimila.

Það er kannski um þessa útgjaldatillögu að segja að hún hefur áður komið fram á þessu ári, í fyrra fjáraukalagafrumvarpi, og fylgdi þá líkt og nú öðru frumvarpi um jöfnun lífeyrisréttinda. Þegar ljóst varð að það frumvarp fengist ekki afgreitt fyrir kosningar tók Alþingi þá ákvörðun að fella til samræmis á brott tillögu úr fyrra fjáraukalagafrumvarpi um framlag til LSR. Nú eru bæði þessi frumvörp aftur fram komin og ég ætla að láta þess getið að ég tel að allir hljóti að sjá að það er nauðsynlegt að Alþingi sjái til botns í meðferð lífeyrisjöfnunarmálsins áður en endanlega afstöðu er hægt að taka til þessa atriðis í fjáraukalagafrumvarpinu. Þess vegna færi best á því að í störfum þingsins væri reynt eins og hægt er að forgangsraða með þeim hætti að þessi mál yrðu endanlega afgreidd í því sem ég myndi vilja kalla réttri röð.

Næst ætla ég að koma að öðrum útgjaldaskuldbindingum sem eru til hækkunar upp á 12,8 milljarða kr. Þar vegur þyngst að gert er ráð fyrir aukningu útgjalda vegna endurmats á kerfislægum kostnaðarþáttum upp á 4,2 milljarða kr. Þar er annars vegar reiknað með að umframútgjöld sjúkratrygginga vegna þjónustu sérfræðilækna og vegna almennra lyfja, S-merktra lyfja, hjálpartækja, þjálfunar, tannlækninga og brýnnar meðferðar erlendis nemi samtals 3,2 milljörðum kr. Þá er áætlað að umframútgjöld almannatrygginga verði 1 milljarður kr. Útgjaldaaukningin stafar einkum af meiri magnaukningu milli ára en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Fjölgunin hvað varðar sjúkratryggingar er m.a. tilkomin vegna fjölgunar koma til sérgreinalækna, fjölgunar umsókna aldraðra eftir hjálpartækjum og umtalsvert meiri magnaukningu í notkun lyfja en á móti kemur að ekki hefur verið gripið til ráðstafana á yfirstandandi ári, svo sem að auka greiðsluþátttöku sjúklinga, til að tryggja að útgjöld liðarins verði innan fjárheimilda. Þá má rekja útgjaldaaukninguna í almannatryggingum m.a. til þess að öryrkjum hefur fjölgað umfram forsendur fjárlaga.

Einnig er áætlað að útgjöld ríkissjóðs aukist um 2,6 milljarða kr. vegna hækkana á lífeyrisskuldbindingum ríkisins gagnvart B-deild LSR, en samkvæmt lögum hækka lífeyrisgreiðslur í B-deild í takti við launaþróun eftirmanna lífeyrisþega. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir 1,4 milljarða kr. viðbótarfjárheimild til Vegagerðarinnar vegna uppsafnaðs halla á vetrarþjónustu frá fyrra ári. Þar er horft til stöðunnar eins og hún var í lok síðasta árs. Hér mætti velta því upp hvort uppsöfnun halla af þessum toga ætti frekar að taka á í lokafjárlögum en fyrir því er nokkuð löng venja að það sé gert í fjáraukalögum þegar rök hafa staðið til þess án þess að ég kunni nánar skýringu á því. Almennt séð hefði ég talið að liðir á borð við þennan fengju meðferð í lokafjárlögum. En þessu er sem sagt komið hér fyrir í fjáraukalagafrumvarpi í samræmi við nokkuð langa venju hvað snertir þörfina fyrir viðbótarfjárheimildir til Vegagerðarinnar vegna uppsafnaðs halla.

Af öðrum stórum útgjaldabreytingum til hækkunar útgjaldaskuldbindinga má nefna viðbótarstofnframlag til uppbyggingar leiguíbúða sem felur í sér 1,2 milljarða kr. útgjaldaaukningu á rekstrargrunni, 700 millj. kr. framlag til að mæta stórauknum fjölda umsókna um hæli á Íslandi og 623 millj. kr. hækkun framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög. Loks hækka ýmsar aðrar útgjaldaskuldbindingar samtals um 2,1 milljarð kr. en þar er um að ræða endurmat á útgjöldum ýmissa smærri liða.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að útgjaldaskuldbindingar lækki af ýmsum tilefnum um samtals 5,7 milljarða. Þar vegur þyngst lækkun vegna endurmats á útgjöldum atvinnuleysisbóta á yfirstandandi ári eða 2,5 milljarðar kr. vegna lækkunar á atvinnuleysi. Einnig er gert ráð fyrir lækkun á greiðslum barnabóta um 1,3 milljarða kr. miðað við það sem áætlað var í fjárlögum. Lækkunina má rekja til aukinnar tekjuskerðingar sem skýrist af því að tekjur heimila eru hærri en reiknað var með. Þá er gert ráð fyrir niðurfellingu fjárheimilda að fjárhæð 1,1 milljarð kr. sem áætlaðar voru til greiðslu húsnæðisbóta frá miðju ári 2016. Á vorþingi voru samþykkt lög um húsnæðisbætur en lögin taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017 og því kemur ekki til útgreiðslu þessarar fjárheimildar á yfirstandandi ári. Loks er áætlað að greiðslur vaxtabóta til þeirra sem hafa greitt vaxtagjöld af lánum vegna kaupa á eigin húsnæði verði 800 millj. kr. lægri en reiknað hafði verið með í fjárlögum ársins 2016. Þetta, líkt og með barnabætur, verður ljóst eftir að álagningu ríkisskattstjóra er lokið. Þegar hún liggur fyrir sjá menn hvernig þessir liðir reiknast upp.

Í fjórða lagi aukast útgjöld sem fjármögnuð eru með ríkistekjum um 5,1 milljarð. Aukningin skýrist nær alfarið af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér og færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs. Þetta hefur nánast engin áhrif á heildarafkomuna.

Í fimmta lagi eru horfur á að vaxtagjöld yfirstandandi árs verði 2,9 milljörðum lægri en reiknað var með við afgreiðslu fjárlaga. Lækkunin skýrist að mestu leyti af uppgreiðslu á skuldabréfi útgefnu í bandaríkjadölum sem var á gjalddaga í júní, en í fjárlögum var gert ráð fyrir endurfjármögnun þess. Þá skýrist lægri vaxtakostnaður einnig af styrkingu íslensku krónunnar, umfram það sem reiknað var með í fjárlögum og lægra vaxtastigi en gert var ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Þá vík ég stuttlega að breytingum sem koma fram í 3. gr. frumvarpsins er varðar lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Í 1. tölulið er lagt til að almenn lántökuheimild fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs verði 90 milljarðar kr. Við afgreiðslu fjárlaga var áætlað að lántökur A-hluta ríkissjóðs á þessu ári yrðu allt að 129,2 milljarðar og var þá reiknað með 65 milljarða lántökum innan lands og 64 milljörðum erlendis. Nú er talið að í ár verði heildarlántökur A-hluta ríkissjóðs 90 milljarðar kr. og allar innan lands. Breyting á áætluðum lántökum frá fjárlögum er því 39 milljarðar til lækkunar. Meðtalið í 90 milljarða áætluðum lántökum er allt að 25 milljarða útgáfa ríkisbréfa til fjármögnunar á framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í tengslum við fyrirhuguð uppgjör á skuldbindingum ríkissjóðs við sjóðinn.

Í 2. tölulið eru lagðar til breytingar á endurlánaheimildum ríkissjóðs til samræmis við horfur fyrir árið í ár. Breytingarnar eru samtals 1,7 milljarðar til lækkunar á endurlánaheimild og eru af tvennum toga. Annars vegar 2 milljarðar til lækkunar á endurlánaheimild til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í samræmi við endurmetna lánsfjárþörf sjóðsins. Hins vegar 300 millj. kr. hækkun á heimild vegna Vaðlaheiðarganga hf., sem við það verður 2,4 milljarðar kr. í samræmi við endurmetna áætlun um lánsfjárþörf félagsins í ár.

Í 3. tölulið eru lagðar til breytingar á heimildum til veitingar ríkisábyrgðar á lántökum fyrirtækja og sjóða sem hafa heimild til lántöku í sérlögum. Lagðar eru til tvær breytingar. Annars vegar 27,9 milljarða lækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar. Fyrirtækið fékk 65 milljarða kr. heimild til lántöku með ríkisábyrgð í fjárlögum, m.a. vegna áforma um endurfjármögnun skulda. Þá er útlit fyrir að endurfjármögnun verði mun minni en áður var áætlað og að lántökur fyrirtækisins í ár verði allt að 37,1 milljarður kr.

Hins vegar er lögð til 1 milljarðs kr. lækkun á lánsfjárheimild Byggðastofnunar. Stofnunin, sem hefur 3 milljarða kr. lánsfjárheimild í fjárlögum, nýtti 2 milljarða kr. heimild með skuldabréfaútgáfu á haustmánuðum og áformar ekki frekari lántökur í ár.

Í 4. tölulið er lagt til að sérstök lántökuheimild til styrkingar á gjaldeyrisforða verði felld brott. Óskuldsettur hluti gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands hefur farið vaxandi á síðustu misserum sökum mikils innflæðis á erlendum gjaldeyri og því hefur ekki verið þörf á lántökum til að efla forðann. Er því lagt til að heimildin verði felld brott.

Sjóðstreymi ríkissjóðs hefur verið endurskoðað og endurskoðuð áætlun í ár miðað við niðurstöður frumvarpsins felur í sér töluverðar breytingar frá fjárlögum því að nú er áætlað að handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 21,2 milljarða kr., fjármunahreyfingar neikvæðar um 72,9 milljarða og hreinn lánsfjárjöfnuður því neikvæður um 94 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að afborganir umfram lántökur og útborguð stöðugleikaframlög frá Seðlabanka Íslands verði 106,4 milljarðar kr. og að handbært fé ríkissjóðs lækki því um 200,5 milljarða kr. í ár.

Handbært fé frá rekstri lækkar um tæpa 54 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Því til viðbótar er nú gert ráð fyrir að útstreymi umfram innstreymi um fjármunahreyfingar verði 97,4 milljarðar kr. umfram fyrri áætlun, einkum vegna þess að fallið var frá sölu á eignarhlut í Landsbankanum sem áætlað hafði verið að myndi skila rúmlega 70 milljörðum í ríkissjóð, auk þess sem 18,3 milljarðar skýrast af uppgjöri við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hreinn lánsfjárjöfnuður lækkar því um 151 milljarð kr. frá því sem áætlað var við afgreiðslu fyrri fjáraukalaga í október.

Umfang lántöku og afborgana er auk þess minna er áætlað var, einkum vegna þess að ekki varð af fyrirhugaðri sölu á eignarhlut í Landsbankanum en gert hafði verið ráð fyrir að nýta söluandvirðið til niðurgreiðslu skulda.

Samkvæmt framansögðu er áætlað að í ár verði hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs neikvæður um 94,1 milljarð, að stöðugleikaframlög að andvirði 60 milljarðar verði útborguð frá Seðlabanka Íslands og að ríkissjóður greiði niður skuldir um 166,4 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að staða ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands lækki sem því nemur, þ.e. um 200,5 milljarða kr.

Loks er sótt um fjórar heimildir í frumvarpinu og gerð grein fyrir þeim í 4. gr. frumvarpsins. Varðandi þær breytingar vísa ég til umfjöllunar í 5. kafla greinargerðarinnar með frumvarpinu, þ.e. um heimildir.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2016. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.