146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:43]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferðina. Fjáraukalög eru til þess að standa straum af ófyrirséðum útgjöldum. Því vil ég spyrja um þær 100 milljónir sem á að veita í lið 1.98 Ýmis framlög atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þar á að veita 100 milljónir til þess að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar.

Þetta eru auðvitað ekkert ófyrirséð útgjöld. Við höfum séð það hvernig ráðuneytin hafa stillt upp, sérstaklega auðvitað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, samningum við bændur og þá er alveg vitað að það er offramleiðsla á kindakjöti sem leiðir til þess að verð lækkar og það er of mikið af því á markaði, þannig að hér er komin ráðstöfun til þess að koma því út. Það kostar skattgreiðendur 100 milljónir. Ég vil spyrja um þessa ráðstöfun.

Fyrst er það þannig að skattgreiðendur greiða fyrir styrki til bænda til þess að framleiða kindakjöt og allt í góðu með það. Það eru á milli 5 og 6 milljarðar sem fara bara í sauðfjársamninginn að mig minnir. Svo er kerfið í kringum þetta svo galið að eins og ég rakti áðan fá bændur auðvitað ekkert fyrir þessar afurðir af því að offramleiðslan er svo mikil og þegar gengur svona illa eiga skattgreiðendur aftur að fara að borga til þess að reyna að koma þessu út og láta verðið ekki falla meira. Þetta er orðin svo mikil hringavitleysa og hefur verið í svo mörg ár að ég vil spyrja hæstv. ráðherra af hverju þetta sé enn og aftur svona og hvað sé svona ófyrirséð varðandi þessi útgjöld þegar það liggur fyrir hvernig (Forseti hringir.) það kerfi sem lagt er upp með gefur nákvæmlega þetta í skyn.