146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið um langt skeið, langt árabil, ágætur stuðningur á Alþingi við að styðja við sauðfjárrækt í landinu. Það hafa verið skiptar skoðanir um með hvaða hætti ætti að standa að því. Við höfum boðað í búvörusamningum að taka þá til áframhaldandi skoðunar á næstu þremur árum. Varðandi þau 800–1.000 óseldu tonn af kindakjöti, sem eru meginástæðan fyrir þeim lið fjáraukalagafrumvarpsins sem hér er spurt um, þá er það einkum að um 600 tonn þar af voru fyrirhuguð í samning við Norðmenn sem, vegna offramleiðslu í Noregi, hættu við kaup samkvæmt gildandi samningi. Það voru ófyrirséðar aðstæður sem hefðu orðið til þess, ef ekki væri brugðist við, að mikið tekjuhrun hefði orðið hjá bændum í landinu. Menn meta það svo að tækifæri séu á öðrum mörkuðum til þess að koma þessari framleiðslu í sölu en ljóst er að innanlandsmarkaðurinn hefði ekki án verulegrar röskunar getað tekið við þetta miklu magni. Til þess að styðja við markaðsátak á öðrum mörkuðum, ég tek fram að hér er um algert skammtímaverkefni að ræða, er gerð þessi tillaga í fjáraukalagafrumvarpinu.