146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:47]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem stendur í mér er að Matvælalandið Ísland eins og verkefnið er kallað fær þegar 100 milljónir á fjárlögum. Svo út af því að Norðmenn ákveða að borða frekar sitt eigið kjöt en að kaupa það að utan þá eiga allt í einu 100 milljónir að fara í aukamarkaðsátak hjá Matvælalandinu Íslandi og það á að redda þessu einhvern veginn. Liggur það ekki mjög ljóst fyrir að vandamálið er að við framleiðum allt of mikið? Ef við framleiðum minna, ef bændur framleiða minna, þá hækkar verð.

Ég hef sagt að þetta er það mikið gæðakjöt, þetta eru það miklar gæðaafurðir, að við eigum ekki að vera að framleiða svona mikinn massa. Við eigum að hækka verð til bænda. Þetta er lúxusafurð. Lambakjöt af lömbum sem alast upp úti á heiðum — þetta er nákvæmlega núll verksmiðjubúskapur. Við eigum að markaðssetja það þannig og þá helst innan lands af því að við fáum hvort sem er ekkert mikið fyrir það erlendis. Þetta er bara kostnaður fyrir skattgreiðendur að henda þessu út. Hvað fáum við fyrir það? Jú, verð á Íslandi lækkar ekki akkúrat rétt á meðan, en það kemur ekkert inn á móti. Hæstv. fjármálaráðherra vill kannski segja mér hvaða fjármunir það eru sem koma inn í gegnum þessa markaðssetningu.