146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Við höfum ekki haft langan tíma til að fara yfir frumvarpið enda stutt síðan því var dreift. Ég tek þó eftir því að enn og aftur ganga ekki þeir milljarðar út sem Alþingi samþykkir að veita til barnafjölskyldna í landinu. Alþingi samþykkti fyrir árið 2016 að 10,8 milljarðar skyldu ganga til barnafjölskyldna, en aðeins 9,6 milljarðar gera það af þeirri upphæð. 1.200 millj. kr. er skilað aftur í ríkissjóð.

Nú er það svo að barnabætur virðast skerðast við 200 þús. kr. laun á mánuði. Ekki einu sinni fólk með lágmarkslaun fær fullar barnabætur. Raungildið hefur lækkað mikið frá árinu 2013, því að viðmiðið hefur verið 200 þús. kr. alveg síðan þá. Það eru 12 þúsund færri barnafjölskyldur sem fá barnabætur núna en fengu árið 2013.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið eðlilegt þegar ljóst var snemma á þessu ári í hvað stefndi að koma með breytingartillögu til þess að breyta viðmiðunarmörkunum þannig að sú upphæð sem Alþingi hafði samþykkt að gengi til barnafjölskyldna færi réttilega þangað?

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að stuðningur og tekjujöfnunarhlutverk barnabóta þróist? Hvernig hann sér það hlutverk þróast til framtíðar? Á næsta ári er aðeins gert ráð fyrir að barnabætur byrji að skerðast við 225 þús. kr. mánaðarlaun. Á hvaða hátt er (Forseti hringir.) áætlunin áreiðanleg og áreiðanlegri en fyrir árið 2016?