146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við áætluðum fjárheimildir fyrir barnabætur og vaxtabætur á árinu 2016 á sínum tíma horfðum við til þess að fjárhæðirnar miðuðu við tiltekna tekju- og eignaþróun á árinu. Þegar síðan kom í ljós að tekjur hækkuðu umfram það sem áður var áætlað reyndi ekki á allar þessar fjárheimildir. Þá má spyrja sig hvort við eigum áfram að halda okkur við það markmið að koma einhverri tiltekinni fjárhæð út í viðkomandi bótaflokka.

Ég held það megi alveg segja gegn því sjónarmiði að Alþingi hafði gengið út frá því að miða við tilteknar meðaltekjur, að miða við tiltekna eignaþróun, þá mundi þessi fjárhæð fara út. En það var í sjálfu sér aldrei tekin ákvörðun um það að óháð öllu öðru, óháð launa- og eignaþróun þyrfti að koma til 10,6 milljörðum út til heimilanna.

Á undanförnum árum höfum við aukið tekjuskerðingarnar og hækkað heildarbótafjárhæðina. Það hefur þýtt að við höfum sett fleiri krónur til þeirra sem eru með lægri laun og lægri eignarstöðu en áður var. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár tökum við tillit til þeirrar niðurstöðu sem við fengum í álagningu ríkisskattstjóra á þessu ári vegna fyrra árs. Við teljum þess vegna að sú hækkun á tekjumörkunum sem gengið er út frá á næsta ári og sú hækkun sem er á bótafjárhæðunum muni í auknum mæli skila sér til fjölskyldnanna í landinu. En undirliggjandi hér er töluvert mikil launahækkun á Íslandi.