146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[12:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. starfandi fjármálaráðherra fyrir framsögnina og einnig var ágætt að heyra andsvörin. Við erum jú að vinna í fjárlagafrumvarpi sem er alveg ljóst að er frekar mikið strípað, að mínu viti og margra annarra.

Það er gott að sjá að tekjur ríkisins eru að aukast. Fjármálaráðherra fór ágætlega yfir hvaða tekjur það eru og hvernig þær eru að aukast. En það er líka verið að tala um útgjöld, eins og gefur að skilja, í frumvarpinu. Eins og ég sagði við upphaf þessa þingfundar var ég mjög ósátt við að málið væri á dagskrá klukkan hálfellefu. Fjárlaganefnd hefur verið að funda stanslaust og reynt að berja saman viðunandi breytingar á því frumvarpi sem liggur fyrir og því höfum við ekki fengið tækifæri til að fara í gegnum þetta frumvarp, en það hefur áhrif á fjárlagavinnuna fram undan hvað þar er að finna. Það hefði að ósekju mátt færa þennan fund fram yfir hádegi til þess að fjárlaganefndarfólk gæti alla vega rétt litið á málið.

Nóg um það. Fyrst og síðast, eins og við þekkjum, byggist staða ríkisins á óreglulegum framlögum og tekjum slitabúanna, að stærstu leyti. Reksturinn gæti verið enn betri ef ekki hefði verið farið í þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn fór í og við þekkjum mætavel. Ég rakst strax á þetta með leiguíbúðirnar á bls. 41 þar sem farið er yfir helstu útgjaldabreytingar. Nú er bætt við 1,2 milljörðum vegna uppbyggingar í leiguíbúðir. Það er ekki í frumvarpi til fjárlaga 2017 eftir því sem ég best veit. Ég hefði viljað sjá að a.m.k. verkefni sem ríkisstjórnin er búin að samþykkja væru fjármögnuð, verkefni sem hún samþykkti meðan hún var með meiri hluta á þingi, að það væri í það minnsta fjármagnað inn í framtíðina en ekki sett í fjáraukalög og ætlast svo til þess að þingið taki á því líka. Það virðist vera valið hverjar af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar fara inn í frumvarpið sem við fjöllum um núna, t.d. var ákveðið að halda sig við að fella út millitekjuþrepið í tekjuskattinum. Sumt er tekið inn sem varðar ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar en ekki annað. Mér þykir sjálfri ekki í lagi að gera þetta á þennan hátt.

Það eru stórir þættir hérna sem við erum alltaf að fjalla um, árlega, t.d. vetrarþjónustan hjá Vegagerðinni og viðbótarstofnframlögin, sem er kannski ekki árlegt. Almannatryggingarnar eru líka inni, sem ég kem aðeins að á eftir.

Skatttekjurnar hækka eðlilega vegna hækkunar launa. Það skilar sér til ríkisins. Svo eru það arðgreiðslurnar sem voru nefndar og við höfum rætt töluvert og erum ekki sammála um nálgun. Við Vinstri græn og fleiri höfum sett fram að áætla megi hærri arðgreiðslur en gert hefur verið. Það eru 23 milljarðar sem bætast við. Við erum ekki að tala um neina smáaura. Þó að við hefðum ekki áætlað nema helminginn af því, eins og við lögðum til við umræðu við fjárlögin sem við störfum nú eftir, er alveg ljóst að ár eftir ár hefur þetta verið svona og afar sérstakt að þetta sé eitt af því sem er alltaf látið vera í lægri kantinum, þótt ég geti alveg fallist á að ekki beri að líta svo á að þetta séu peningar sem hægt er að eyða öllum fyrir fram. En þetta er eitt af því sem við töluðum um við fjárlagaumræðuna og lögðum til. Það kemur á daginn að það hefur gengið eftir og vel það.

Ég ætla aðeins að fara í málaflokkana, þ.e. þá einstöku fjárlagaliði sem hér eru undir. Ég segi enn og aftur að við fáum væntanlega umfjöllun um þetta í fjárlaganefndinni í dag og getum þá rætt þetta enn betur við ráðherra og ráðuneyti. Ég er ánægð með nokkra hluti sem eru lagðir til í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Eitt af því sem við bentum á í umræðunni og er ekki ófyrirséð er t.d. Menntaskólinn á Akureyri. 30 milljónir eru lagðar til vegna breytinga á tímarammanum en verið er að stytta námið í þrjú ár eins og í öðrum skólum. Starfsárið byrjar þar af leiðandi fyrr því að líka er stefnt að því að skólarnir á Eyjafjarðarsvæðinu og austur í Þingeyjarsýslu geti unnið meira saman og þá þurfa þeir að hafa samræmt starfsár. Þetta kostar 44 milljónir en einhverra hluta vegna á skólinn að bera 14, vegna þess að hér eru aðeins lagðar til 30. Ég hef ekki trú á því að skólinn verði sérstaklega hress með það.

Ég er ánægð með að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fær viðbótarfjárveitingu. Það er eitt af því sem við lögðum mikla áherslu á, bæði við gerð þessara fjárlaga og líka fjárlaganna þar áður, að Samskiptamiðstöðin fengi þá fjármuni sem hún þarf þannig að túlkaþjónusta sé sómasamleg hér á landi. Hún hefur ekki verið það. Fólk sem þarf á slíkri þjónustu að halda hefur setið verulega eftir. Ég er ekki sannfærð um að þær 7,7 milljónir sem eru lagðar til dugi en ætla ekki að fullyrða um það því að ég hef ekki haft tækifæri til að fara yfir það með þeim hvernig staðan á málaflokknum er.

Það er líka gott að bætt er í vegna niðurgreiðslna á húshitun. Eitt af því sem við höfum talað mikið um er að jafna húshitunarkostnað. Hér er um að ræða áætlun sem gerð var og var ljóst að bæta þyrfti fjármunum í. Það vantaði ekki að komin var fram tiltekin áætlun sem var svo ákveðið að geyma og er verið að fjármagna hér upp á 70 milljónir til að standa við skuldbindingarnar á árinu sem er að líða.

Mig langar að taka aðeins fyrir Landhelgisgæsluna. Lögð er til 75 millj. kr. hækkun á framlögum til að mæta ófyrirséðu tekjutapi vegna þátttöku Gæslunnar í verkefnum á vegum Frontex. Það er hins vegar ljóst að tekjutapið nær líka inn á komandi ár. Þess vegna er afar sérstakt að sjá að Landhelgisgæslan, sem hefur einmitt vakið athygli á stöðu sinni og hvað það þýðir fyrir ekki bara sjófarendur heldur fyrir fólkið í landinu, bæði okkur sem hér búum að staðaldri og ferðamenn, getur ekki sinnt þjónustunni með viðunandi hætti. Það vantar 300 milljónir inn í reksturinn á næsta ári að lágmarki til þess að geta haldið úti bæði skipi og þriðju þyrlunni og halda mannskap. Við erum að tala um mannauð sem má ekki tapast. Ég vona að það náist samstaða um það í fjárlaganefnd við vinnslu fjárlagafrumvarpsins að við mætum þessu, en auðvitað hefði þetta átt að vera í frumvarpinu. Það liggur fyrir að staðan er svona.

Það sama má segja um Vegagerðina. Það er snjómoksturinn, eilíft verkefni, og búið að vera að taka út af þjónustuliðum til að reyna að mæta því. Maður getur ekki annað sagt í ljósi þess að verið er að bæta við í Vegagerðina hversu ömurlegt ástandið er varðandi þau mál öll og líka framkomu framkvæmdarvaldsins gagnvart samþykktri þingsályktunartillögu þingsins með öllu greiddum atkvæðum í þingsal. Það er vert að minna á það enn og aftur að ríkisfjármálaáætlunin sem kom fram síðar var samþykkt af þáverandi meiri hluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, en samgönguáætlun var samþykkt af öllum þingmönnum sem þá sátu í sal. Þegar sú samgönguáætlun kom fram af hálfu innanríkisráðherra sagðist hún treysta sér til að fjármagna hana. Hún var samt um 3 milljörðum hærri en ríkisfjármálaáætlun samráðherra hennar sem kom fram seinna.

Bætt er við fjármunum í Tryggingastofnun til þess að hún geti aðlagað tölvukerfin og greitt út bætur samkvæmt nýjum lögum og sinnt upplýsingaskyldu sinni sómasamlega. Það er mjög víða í kerfinu sem við þurfum að huga að því að mikil þörf er fyrir endurnýjun búnaðar, svo ég nefni ekki framhaldsskólana sem margir hverjir eru mjög illa staddir hvað það varðar. En þetta er hið besta mál.

Þá eru það lífeyristryggingarnar. Þar er verið að hækka vegna þess að öryrkjum hefur fjölgað og svo hefur aldurstengda örorkuuppbótin og örorkulífeyrinn og annað slíkt hækkað. Það þarf að mæta því. Ég verð að segja að ég sakna þess að sjá ekki, enn og aftur, þrátt fyrir umræðuna, þrátt fyrir allt tal í kosningum, að öryrkjum og eldri borgurum sé mætt með afturvirkri greiðslu til 1. maí. Á tímum góðæris, eins og hér er sagt að ríki, finnst mér afar sérstakt að enn og aftur eigi sá hópur að sitja eftir.

Eitt af því sem við tökumst á við árlega eru Sjúkratryggingar og umframkostnaður þar. Það er m.a. vegna þess að lækniskostnaðurinn hækkar, þ.e. samningar við sérfræðilækna, því að hann tekur verðlagsbreytingum miðað við launavísitölu. Það er aldrei gert ráð fyrir því í fjárlögum, sem er mjög sérstakt. Svo eru það viðbótarheimildir vegna útgjalda, magnaukningar og annað slíkt sem Sjúkratryggingar gerðu ráð fyrir að myndi verða umtalsvert hærra en fjármálaráðuneytið ákvað að það yrði. Það er lögð fram áætlun og við erum alltaf að brýna stofnanir okkar til að gera góðar áætlanir, raunverulegar, góðar áætlanir. En eins og hér kemur fram gera fjárlögin ráð fyrir 1% magnaukningu lyfja milli ára en áætlun Sjúkratrygginga gerði ráð fyrir að aukningin yrði umtalsvert meiri, eða 3,5% ofan á rauntölu fyrra árs. Hvað gerist? Þetta stendur. Við tökum þetta fyrir árlega, S-merktu lyfin, við tökum þau fyrir árlega. Það er aldrei gert ráð fyrir að það verði eins og það er, þrátt fyrir reynsluna. 430 milljónum er bætt við þar. Það er bæði magnaukning og svo, og um það verður ráðuneytið að afla sér upplýsinga, hefur áætlaður sparnaður vegna samheitalyfja við Renegade ekki skilað sér og við verðum að vita hvers vegna og hversu miklar fjárhæðir eru þar undir.

Hér er líka talað um tannlækningar en samningurinn við tannlækna gerir ráð fyrir að hluti verðlagsbreytinga taki mið af launavísitölu. Sama er uppi á teningnum og áður. Þetta eru 160 milljónir í heildina og 100 milljónir út af þessu. Það er ekki gott að við stillum fjárlögunum upp á þennan hátt.

Svona í lokin er ánægjulegt að sjá að verið er að sækja um stofnframlög vegna leiguíbúðanna, meira en gert var ráð fyrir. Mér finnst það mjög jákvætt. En ég ítreka enn og aftur að liðurinn er hækkaður um 1.200 milljónir en ekki gert ráð fyrir því inn í þessa viðbót, sem þó hefur komið fram af hálfi ráðuneytisins að vanti. Ég skil ekki af hverju það er ekki gert.

Heila stóra málið er svo lífeyrisskuldbindingarnar sem hefur verið farið yfir og var farið yfir í umræðu sem ég missti því miður af því að ég var á fundi fjárlaganefndar. Ég ítreka enn og aftur að við fjárlaganefndarfólk höfum ekki einu sinni tækifæri til að fylgjast með öllu því sem hér er um að vera.

Ég tek undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur varðandi barnabæturnar og þá umræðu sem varð milli hennar og starfandi ráðherra. Það er ólíðandi að við skulum vera með svona lágt viðmið vegna barnabótanna þegar við tölum um að 300 þús. kr. lágmarkslaun séu eitthvað sem við getum sætt okkur við. Það er auðvitað ekki í lagi að skerðing vegna barnabóta byrji við margfalt lægri laun. (Forseti hringir.)

Það er fleira sem ég gæti farið yfir varðandi umhverfis- og auðlindaráðuneytið en tíminn er búinn svo það verður að bíða næstu umferðar.