146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[12:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og kom fram fyrr í dag er aðeins skammur tími síðan fjáraukalagafrumvarpinu var dreift. Ég viðurkenni fúslega að ég hafði ekki tíma til að lesa það eftir klukkan tíu í gærkvöldi og er búin að vera á nefndarfundum í allan morgun. Það eru þó örfá atriði sem mig langar til að nefna sem eru augljós þegar við flettum frumvarpinu. Í fyrsta lagi eru það barnabætur og vaxtabætur. Þarna er verið að skila í ríkissjóð 2 milljörðum kr. sem Alþingi hafði samþykkt að mundi ganga til fjölskyldna í landinu. Það er ástæða til þess að staldra aðeins við og rifja upp þá umræðu sem fram fór þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 var til umræðu. Þá benti minni hluti þingsins á í hvað stefndi og lagði til breytingartillögur þar sem barnabætur t.d. byrjuðu ekki að skerðast fyrr en við lágmarkslaun. Það er eiginlega alveg lágmarkið.

Í viðmiðunum byrja barnabætur að skerðast við 200 þús. kr. á mánuði. Þau skerðingarmörk hafa verið óbreytt síðan árið 2013 og raungildi þeirra augljóslega dregist saman á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæplega 30%, útgjöld til barnabóta að raungildi dregist saman um rúmlega 12% og fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur fækkað um 12 þús. Það hefur því á síðasta kjörtímabili verulega dregið úr stuðningshlutverki og tekjujöfnunarhlutverki barnabóta. Þegar við horfum fram á að fólk í lægsta tekjufjórðungnum fær aðeins 2 þús. kr. í barnabætur á mánuði, hjón með tvö börn, þá er hlutverk kerfisins orðið bjagað. Í mínum huga er röng stefna að nota barnabótakerfið sem einhvers konar fátækrastyrk. Við eigum að horfa til hinna norrænu ríkjanna þar sem barnabætur eru ekki tekjutengdar og eru miðaðar við stuðning við barnafjölskyldur til þess að jafna stöðu þeirra við aðra. Þegar hlutföllin eru orðin eins og þau eru hér og er dregið mjög skýrt fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi þá sjáum við að tekjujöfnunarhlutverkið er ekki mikið. Þegar við horfum til frumvarpsins fyrir árið 2017 er það engu skárra. Þar er gert ráð fyrir upphæð upp á 10,7 milljarða kr. sem er nánast upp á krónu það sama og Alþingi samþykkti að ætti að fara til barnabóta árið 2013. Að vísu er farið með viðmiðunarmörkin upp í 225 þús. kr. þannig að þeir sem eru undir 225 þús. kr. fá fullar barnabætur en þeir sem eru þar fyrir ofan fá skertar barnabætur. Dregið er úr stuðningi við barnafjölskyldur í landinu sem eru augljóslega verst settar þegar greiningar eru skoðaðar.

Það sama er að segja um vaxtabótakerfið. Vaxtabæturnar eiga að beinast helst að þeim tekjulægri og fólki með meðaltekjur og eru miðaðar bæði við tekjur og eignarstöðu en það hefur dregið verulega úr því kerfi og eru vaxtabætur núna helmingi lægri að raungildi en á árinu 2013 og fjölskyldur sem fá greiddar vaxtabætur 15 þús. færri. Þegar við skoðum viðmiðunarfjárhæðirnar í vaxtabótunum hafa þær ekki breyst síðan 2010 en á sama tíma hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 65%, verðlag um 20% og launavísitala um rúmlega 50%. Viðmiðunartölurnar eru allar á þann veg að dregið er úr stuðningshlutverki barnabótakerfisins og vaxtabótakerfisins. Þetta er hápólitískt mál sem við þurfum að gefa okkur tíma til þess að velta fyrir okkur og teikna upp hvaða áhrif þetta hefur á fjölskylduhópa í landinu. Staðreyndin er sú að við getum verið með barnafjölskyldu sem hefur hækkað lítillega í launum en fasteignamatið hefur líka hækkað mjög mikið. Það verður til þess að barnabæturnar og vaxtabæturnar lækka og ráðstöfunarfé getur verið minna en fyrir kjarasamningana með launabótunum sem þar koma inn. Þetta verður að skoða í samhengi.

Ég er óánægð með það hvernig er skautað yfir þetta og sagt: Já, nú getum við verið glöð af því upphæðin sem átti að renna til barnabóta og vaxtabóta er lægri og það er af því fólkið í landinu er með hærri tekjur. Það er ekkert horft á bak við það hvernig þessum fjárhæðum er úthlutað eða á þær viðmiðunartölur sem þar eru undir, sem eru skammarlega lágar. Þetta þurfum við að taka til athugunar og skoðunar fyrir fjárlagafrumvarp 2017 og svo síðan til framtíðar.

Það er annað stórmál sem liggur hér undir sem við verðum að skoða og það eru almannatryggingarnar og sú breytingartillaga sem minni hlutinn hefur borið upp við fjáraukalög, bæði fyrir árið 2015 og þau fyrri sem komu á árinu 2016, að hækkunin verði frá 1. maí 2016 en ekki frá 1. janúar 2017 og að þeir sem þurfa að reiða sig á greiðslur frá Tryggingastofnun fái bætur um leið og aðrir landsmenn. Hér hefur verið gert ráð fyrir átta mánaða töf. Þarna erum að ræða fátækasta fólkið í landinu. Það er sannarlega borð fyrir báru, eins og menn sjá þegar fjáraukalagafrumvarpið er skoðað, og við eigum að sjá sóma okkar í því að hækka greiðslurnar afturvirkt frá 1. maí.

Í andsvörum mínum áðan við starfandi hæstv. fjármálaráðherra talaði ég um áætlanir vegna arðgreiðslna. Það er jafn slæmt að vanáætla eins og ofáætla. Við sem erum að vinna með fjárlagafrumvarpið hverju sinni þurfum að geta treyst því að áætlanirnar séu vel unnar og að við vitum hvað við erum með í höndunum, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Það hefur gerst ár eftir ár að arðgreiðslur eru stórlega vanáætlaðar, ekki um nokkrar milljónir eða nokkra milljarða heldur telur þetta í tugum. Ég ítreka að það er alveg jafn slæmt að vanáætla eins og ofáætla. Það getur verið einskiptisaðgerð sem ágætt væri að fjármagna með arðgreiðslum. Við hljótum að blása á það þegar menn segja að ekki sé hægt að gera breytingar á þessu af því þeir sem eru með frumvarpið fái upplýsingar í júní og því ekki hægt að breyta neinu fyrir afgreiðslu frumvarps sem er lokið í lok desember, þegar arðgreiðsluákvarðanir eru síðan í lok janúar eða febrúar. Við hljótum að blása á það þegar ríkið er eigandi tveggja stórra banka sem standa undir stærstum hluta af þeim arðgreiðslum. Það hlýtur að vera hægt að grípa símann og athuga hvað líklegt er að gerist eftir fjórar vikur eða svo. Þá getum við stillt útgjöldum okkar og tekjum saman. Arðgreiðslur árið 2015 fóru í 30 milljarða og 36 árið 2016 . Þær eru áætlaðar 16 milljarðar á árinu 2017. Það er augljóslega eitthvað bjagað við það sem þarf að skoða betur.

Talað var í fyrri ræðum um sjúkratryggingar. Það er sannarlega rétt að þetta er mál sem við tökum upp í fjáraukalögum á hverju ári. En þegar við skoðum þær tölur sem eru nú undir fjáraukalögunum sker í augu að það er læknaþjónusta sem við greiðum aukalega til. Þar undir er kjarasamningur sérgreinalækna þar sem magntölur hækka greiðslurnar frá ríkissjóði. Sama er með þjónustusamninga við einkaaðila. Þar eru magntölur sem hækka greiðslurnar úr ríkissjóði til annaðhvort heilsugæslustöðva eða læknastofa. Það hallar augljóslega á opinbera kerfið þegar kemur að þessu þar sem ekki er gert ráð fyrir magnaukningu. Það er ekki gert ráð fyrir magnaukningu eða tekið tillit til aldursdreifingar þjóðarinnar þegar við ákveðum fjárframlög í opinbera heilbrigðiskerfið, en þegar kemur að því einkarekna þá tökum við tillit til hvors tveggja. Þarna hallar á opinbera kerfið og það gengur ekki.

Að lokum þetta: Lífeyrissjóðamálið og stóra greiðslan til að jafna réttindi þeirra sem eru á almenna markaðnum og opinbera markaðnum er inni í þessum fjáraukalögum. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að lenda því mikilvæga máli. Það er mikilvægt sem undirstaða fyrir frið á vinnumarkaði, það er mikilvægt fyrir fólk svo það geti fært sig á milli opinbera kerfisins og almenna kerfisins á vinnumarkaði án þess að tapa réttindum eða fá lægri laun, en það er líka mikilvægt fyrir ríkisreikning. Ef við látum þessa stóru tölu detta á árið 2016 kemur ekki til hallareksturs en ef við drögum þetta og gerum þetta á árinu 2017 eða 2018 þá kemur þetta sem hallarekstur yfir árið. Það getur haft afar slæm áhrif. Ég tala nú ekki um ef við horfum til þeirra fjármálareglna sem við höfum búið okkur til sjálf í lögum um opinber fjármál. Í þriðja lagi er mjög mikilvægt fyrir ríkisstarfsmenn að hallarekstur A-deildarinnar sé stöðvaður og gatinu sé lokað. Við vitum ekkert hvernig við eða ríkissjóður verður í stakk búinn til þess að mæta þessum skuldbindingum einhvern tímann í framtíðinni og verið getur að það komi í lokin sem alvarleg skerðing á lífeyrisgreiðslum til opinberra starfsmanna. Ég held því að það sé í öllu falli mjög mikilvægt að ná samkomulagi um frumvarpið sem núna er til vinnslu í nefnd. Ég man reyndar ekki hvort þetta er efnahags- og skattanefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd en ég geri ráð fyrir að fólk viti hvað ég er að tala um.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.