146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðari hluta spurningar hv. þingmanns skal ég viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega hvað liggur að baki því að laun forsætisráðherra eru ekki algjör efri mörk núna, ég svara því alveg hreinskilnislega.

Svo vil ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða vinnu í nefndinni, athugasemdir hennar og Pírata voru mjög gagnlegar og voru margar hverjar teknar inn í meirihlutaálitið, eins og hún veit. Það er leitt að við höfum ekki getað komist að sameiginlegri niðurstöðu með lokaafurðina.

Þar sem hún spyr hvernig ég telji að aðgengi almennings og gagnsæi við störf kjararáðs sé bætt þá finnst mér 4. gr. frumvarpsins, um launaákvarðanir, vera til mikilla bóta. Þar er því lýst hvernig kjararáð á að komast að niðurstöðum sínum á annan hátt en áður var. Þar er ákveðið gagnsæi og skýringar og upplýsingar. Svo má spyrja sig hvort kjararáð ætti t.d. að birta fundargerðir sínar opinberlega á vef. Mér skilst að ekki sé venja að setja slík skilyrði í lagatexta en það er sjálfsagt að skoða ef Píratar vilja leggja það fram sem tillögu. Ég hef ekki skoðað minnihlutaálitið, ég hef ekki haft tíma til þess, en mér skilst að Píratar séu að hugsa um það.