146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls fyrir hönd Pírata og sem fulltrúi Pírata í efnahags- og viðskiptanefnd. Þó að ég hafi nú tekið við sem varamaður Smára McCarthys í efnahags- og viðskiptanefnd sat ég þar sem íhlaupakona fyrir kjararáð því að ég hef sérstakan áhuga á því máli.

Ég hef nú kynnt mér frumvarpið ágætlega og finnst það að vissu leyti til bóta, til dæmis að því marki að kjararáði er skylt að birta tölulegar upplýsingar um þá samanburðarhópa sem það notar til að meta laun þingmanna, dómara og annarra æðstu ráðamanna íslensku þjóðarinnar.

Mér finnst hins vegar enn töluvert vanta upp á gagnsæi. Ég kem kannski betur inn á það á eftir. Ég vil hins vegar þakka nefndinni fyrir gott samstarf. Ég gleðst yfir því að tillaga mín og okkar Pírata um að kjararáð sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd hafi ratað inn í meirihlutaálitið. Mér finnst mjög mikilvægt að það komist til skila þar sem einhverjar efasemdir og spurningar hafa verið um hvort þessi hafi sjónarmið komið fram í nefndinni. Það eru ekki allir á eitt sáttir um hvort kjararáð sé almenn og venjuleg stjórnsýslunefnd sem beri að hlíta stjórnsýslu- og upplýsingalögum eins og allar aðrar nefndir, eður ei. Mér finnst mjög til bóta að nú höfum við tekið af allan vafa og að ekki sé lengur hægt að skjóta sér undan kvöðum þessarar stjórnsýslunefndar, að upplýsa almenning um störf nefndarinnar, skyldi hann vilja vita eitthvað um þau, og að svara t.d. okkur þingmönnum sem höfum sent kjararáði formlega fyrirspurn sem aðili máls samkvæmt stjórnsýslulögum um að fá ýmsum spurningum svarað um hvernig kjararáð komst að þeirri niðurstöðu sem raun bar vitni um launakjör okkar hv. þingmanna hér um daginn.

Við Píratar höfum lagt fram minnihlutaálit. Ég hef hugsað mér að lesa það fyrir hv. þingheim, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur brýnt að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi telur minni hlutinn eðlilegt að lögfesta hæfnisskilyrði um þá sem eru skipaðir í kjararáð. Minni hlutinn telur að ráðið eigi að samanstanda af einstaklingum sem hafa skilning á vinnumarkaði og launavísitölu og hafa komið að því að greina launaákvarðanir. Minni hlutinn telur eðlilegt að tryggt verði að í ráðinu eigi sæti fulltrúar með reynslu af framangreindu og af gerð kjarasamninga. Þau sjónarmið hafa komið fram að nákvæm skilgreining á hæfnisskilyrðum sé of hamlandi við skipan í ráðið, enda er í frumvarpinu kveðið á um að ráðið geti jafnframt sótt sér sérfræðiþekkingu. Minni hlutinn telur mikilvægt að tryggt sé að í ráðinu sitji einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn og góðan skilning almennum og opinberum vinnumarkaði. Því leggur minni hlutinn til að þeir ráðsmenn sem Alþingi skipar í kjararáð uppfylli eftirfarandi hæfniskröfur: Að tveir þeirra hafi haldgóða reynslu af og þekkingu á gerð kjarasamninga bæði af almennum og opinberum vinnumarkaði. Æskilegt er að sá þriðji hafi reynslu af starfsmannastjórn í stóru fyrirtæki á almennum markaði eða opinberri stofnun.

Minni hlutinn telur ótækt að störf kjararáðs séu eins ógagnsæ og raun ber vitni. Almennt má segja að almenningur hafi lítinn sem engan aðgang að upplýsingum um hvernig ráðið starfar né hvernig það er skipað. Minni hlutinn leggur því til að kjararáð skuli birta fundargerðir sínar opinberlega til þess að auðvelda almenningi að glöggva sig á starfsemi ráðsins. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að kjararáði heldur sérstaka vísitölu sem unnin er fyrir ráðið eftir leiðbeiningum frá Hagstofu Íslands. Minni hlutinn telur brýnt að vinnubrögð við útreikning vísitölu þessarar verði gagnsærri.

Kjararáð gegnir mikilvægu hlutverki, þ.e. að ákvarða laun æðstu embættismanna ríkisins, m.a. dómara og alþingismanna. Minni hlutinn telur því rétt að ráðsmenn birti hagsmunaskráningu með opnum og aðgengilegum hætti til þess að auka gagnsæi og traust á réttarríkinu. Minni hlutinn leggur því til breytingartillögu við 5. gr. í þá veru að ráðsmenn kjararáðs skuli birta hagsmunaskráningu sína á opinn og aðgengilegan hátt. Þeirri tilhögun er ætlað að tryggja enn frekar sjálfstæði ráðsins gagnvart aðilum þegar ráðið sker úr um kjör þeirra.

Í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar á vinnumarkaði. Við umræðu um málið í nefndinni var bent á að heppilegt væri að ramma betur inn hvað fælist í þessu. Sams konar ákvæði var í 5. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, og í athugasemdum við frumvarpið er varð að þeim lögum kom eftirfarandi fram: ,,Í frumvarpi þessu er fækkað mjög þeim embættismönnum sem taka skulu laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms. Launabreytingar, sem Kjaradómur kann að ákveða, geta því ekki skipt sköpum varðandi útgjöld og afkomu ríkissjóðs. Hins vegar geta úrskurðir kjaranefndar að einhverju leyti tekið mið af úrskurði Kjaradóms auk þess sem líklegt er að horft sé til niðurstöðu Kjaradóms við gerð kjarasamninga hjá þorra launafólks. Viðurkennt er það markmið að treysta þurfi stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar og gildi hóflegra launahækkana í því sambandi. Afar brýnt er að varðveita þann stöðugleika og samstöðu um hann sem næst á vinnumarkaði á hverjum tíma. Því þykir rétt að setja ákvæði það sem tilgreint er í 2. málslið um að taka beri tillit til þeirrar þróunar sem er í kjaramálum á vinnumarkaði þannig að ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu. Jafnframt felur ákvæðið í sér að Kjaradómi ber, standi þannig á, að taka tillit til launa- og kjarabreytinga á vinnumarkaði sem stafa af batnandi afkomu þjóðarbúsins, þó svo breytingarnar eigi sér ekki stoð í kjarasamningum. Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana.“

Enn fremur sagði í athugasemdum við frumvarpið sem varð að gildandi lögum:

,,Þessu ákvæði var með öðrum orðum ætlað að vera eins konar almenn umgjörð um ákvarðanir Kjaradóms sem byggðar væru á viðleitni til þess að tryggja bæði innra og ytra samræmi í kjaraákvörðunum Kjaradóms. Í frumvarpinu um kjararáð sem hér er gerð grein fyrir er fylgt sömu stefnu og hún reyndar ítrekuð með því að í síðari málsgrein 8. gr. frumvarpsins er kveðið enn skýrar að orði um þetta efni en þar segir: „Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“. Til þess að leggja áherslu á að hér er um almenna viðmiðun að ræða en ekki einvörðungu vísað til sambærilegra starfa á vinnumarkaðnum er hér talað um almenna þróun á vinnumarkaði auk þess sem það er áréttað að þessa sjónarmiðs skuli ætíð gætt.“

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. málslið 2. mgr. 2. gr. bætist: og skulu tveir þeirra [þ.e. ráðsmanna kjararáðs] hafa haldgóða reynslu af og þekkingu á gerð kjarasamninga bæði af almennum og af opinberum vinnumarkaði.

Á eftir 1. málslið 2. mgr. 2. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Æskilegt er að sá þriðji hafi reynslu af starfsmannastjórn í stóru fyrirtæki á almennum markaði eða opinberri stofnun.

Eins leggjum við til að 1. málsliður 4. mgr. 4. gr. orðist svo: Kjararáð skal í úrskurðum sínum ekki hækka starfskjör þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir umfram almenna þróun kjara á vinnumarkaði.

Við 5. gr. a: Á undan 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi: Ráðsmenn skulu birta hagsmunaskráningu sína opinberlega og með aðgengilegum hætti.

Eins bætist þar við ný málsgrein: Fundargerðir kjararáðs skulu birtar opinberlega og með aðgengilegum hætti.

Herra forseti. Við teljum að með þessum breytingartillögum megi efla enn frekar það gagnsæi sem ríkja ætti um það ráð sem ákvarðar laun æðstu embættismanna þjóðarinnar. Eins og staðan er núna er almenningi í raun gert nánast ómögulegt að átta sig á því hvernig kjararáð starfar, eftir hvaða stöðlum það vinnur, hvaða sjónarmið eru höfð til hliðsjónar, hverjir starfa eiginlega fyrir kjararáð, hversu mikið þeir fá í laun fyrir það, hvaða tengsl þeir hafa inn á vinnumarkaðinn, við dómara, við aðra æðstu embættismenn sem ráðið ákvarðar laun fyrir, hvaða hagsmuna þeir hafa að gæta. Á engu af framantöldu er tekið í nýjum lögum um kjararáð.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að ekki hafi verið meiri vilji fyrir því af hendi þeirra sem leggja fram þetta frumvarp að efla hér gagnsæi gagnvart störfum kjararáðs þar sem heyrst hefur frá stórum hluta þingheims að eitt meginmarkmiðið með þessari lagabreytingu hljóti að vera að efla gagnsæi við störf kjararáðs. Í stað þess að grípa beint inn í úrskurð kjararáðs sem féll núna liðinn kjördag væri miklu betra að efla bara gagnsæi um störf kjararáðs.

Í því ljósi finnst mér hálfglatað, herra forseti, að ekki hafi tekist að ná sátt um það í nefndinni að kjararáð skuli a.m.k. birta fundargerðir og hagsmunaskráningu. Ég hefði nú talið að birta ætti hagsmunaskráningu þeirra sem ákvarða laun hinna hæst settu í þjóðfélaginu ætti svo almenningur hefði aðgang að þeim. Mér finnst það bara sjálfsögð krafa.

Hvað aðrar breytingartillögur varðar mun hv. þm. Jón Þór Ólafsson ræða þær töluvert betur hér á eftir.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að hvetja til þess að hv. þingmenn allir skoði þær breytingartillögur sem við Píratar höfum lagt fram og íhugi hvort þær megi ekki verða hluti af frumvarpinu til að tryggja betur aðgang almennings að upplýsingum, tryggja betur gagnsæi kjararáðs gagnvart almenningi og eins okkur sem undir ráðið heyrum.

Loks fagna ég því að það sé alla vega orðið gulltryggt að kjararáði beri að fylgja stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.