146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það skiptir miklu máli að auka gagnsæi í störfum kjararáðs eins og víðar í stjórnsýslunni. Þar gladdist ég t.d. sérstaklega þegar ég sá í frumvarpinu að í g-lið 8. gr. er tekið fram að ráðherra skuli „taka saman og birta árlega sundurliðaðar upplýsingar um heildarlaun þeirra er falla undir kjararáð“, af því að merkilegt nokk þarf maður að grafa sig í gegnum stafla af pdf-skjölum á heimasíðu kjararáðs í dag til að sjá hver staða launa þessa hóps er.

Ég held að ef við sæjum þennan lista á einum stað uppraðaðan myndi okkur jafnvel bregða við að sjá hversu margir það eru sem heyra undir kjararáð sem eru á býsna góðum launum. Það erum ekki bara við þingmenn sem höfum ansi ríflegar tekjur í gegnum kjararáð heldur mjög margir aðrir.

Þá vil ég, líkt og þingmaðurinn, fagna ég því að það sé alveg á tæru að kjararáð sé stjórnsýslunefnd þannig að aðgengi að gögnum sé tryggt. Þetta er einn af þeim stöðum þar sem gengur ekki lengur að reistar séu girðingar varðandi aðgengi að upplýsingum.

Mig langar líka að fagna hagsmunaskráningunni, af því að hún á að sjálfsögðu heima hér eins og hjá hæstaréttardómurum, eins og hjá þingmönnum og annars staðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tvennt í tillögum hennar. Varðandi hæfniskröfur, að tveir kjararáðsliðar skuli hafa haldgóða reynslu og þekkingu á gerð kjarasamninga, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði: Er þetta ekki orðið dálítið þröngt, eins og ef ég segðist vilja eignast gæludýr, það ætti að vera svart og hvítt, það ætti að vera fugl og ætti að vera ófleygt, er þingmaðurinn ekki bara að biðja um mörgæs?