146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mörgæsir mjög krúttlegar. Ég væri alveg til í að fá eina slíka.

Mögulega hefur það misfarist hjá okkur að skrifa „og/eða“ eins og ætlunin var. Ég tel mjög æskilegt að það séu einhvers konar hæfniskröfur varðandi þá sem skipaðir eru í kjararáð, einfaldlega til þess að ráðið verði ekki of einsleitt og til þess að við höfum þar starfandi einstaklinga sem hafa raunverulegan skilning á því sem er í gangi á hinum almenna vinnumarkaði.

Það má hins vegar ræða nákvæmlega hvernig þetta er formúlerað. Eins og staðan er núna eru nákvæmlega engar hæfniskröfur. Það fékkst enginn hljómgrunnur fyrir því að setja hér lágmarksskilyrði, að þeir sem skipaðir eru í kjararáð skuli hafa hæfni og/eða menntun sem nýtist þeim í starfi. Fyrst ég fékk það ekki í gegn ákvað ég að fara alla leið og koma með óskalista um samsetningu kjararáðs, alla vega hvað varðar skipun Alþingis, af því að svo má ekki gleyma að fjármálaráðherra og Hæstiréttur skipa hvor sinn og þau geta kannski haldið áfram í þessu lögfræðingablæti sem hefur verið í gangi í ráðinu síðustu ár.