146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þingmanninum að við þurfum ekki lögfræðinga í öll störf en ég er dálítið hræddur, af því að við erum með þetta mikið niðurnjörvaðar hæfniskröfur, að reyndin yrði að þetta yrði dálítið þröngur hópur. Fyrri tillaga þingmannsins hugnast mér því betur, að þetta sé orðað aðeins víðar, að talað sé um hæfni og reynslu sem nýtist í starfi. Það eru margir sem koma að ákvörðun launa á almennum og opinberum vinnumarkaði sem ekki hafa menntun sem myndi passa inn í þröngan ramma lagatexta, mjög margir sem eru starfandi í verkalýðsfélögum víða um land sem eru bara fólk af gólfinu. Ég mundi ekki vilja sjá þennan texta loka á möguleika slíkra einstaklinga til að komast inn í kjararáð umfram þá dobíu lögfræðinga sem bíður alltaf á hliðarlínunni.