146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég árétti aðeins ástæðuna fyrir þessari breytingartillögu og ástæðuna fyrir því að við viljum setja hæfniskröfur á kjararáð þá er staðan þannig núna að Alþingi, Hæstarétti og fjármálaráðherra er ekki gert skylt að rökstyðja með nokkrum hætti hvers vegna þeir tilnefna þá aðila sem þeir tilnefna í kjararáð. Ég hef leitað, það gæti svo sem verið að ég þyrfti að leita betur, herra forseti, og ekki fundið rökstuðning fyrir því af hverju nákvæmlega þeir ráðsmenn ráðsins sem sitja þar í dag voru skipaðir, hvaða hæfni þeir hafa til þess að sitja í ráðinu og hvers vegna þeir eru æskilegir til að ákvarða laun æðstu embættismanna ríkisins. Að þeim ólöstuðum sem sitja í kjararáði væri ég einfaldlega til í að nálgast einhvers konar upplýsingar um það hvers vegna þeir voru skipaðir framar einhverjum öðrum.

Mér finnst vel hægt að ræða um nákvæma orðanotkun gagnvart þeim hæfniskröfum sem ætti að setja fram. Það sem mér finnst langmikilvægast er að þeir sem skipa í ráðið þurfi að færa fyrir því einhvers konar rök og þurfi að koma á framfæri og í raun og veru bera ábyrgð á sjónarmiðum sínum, hvers vegna þeir telji einn einstakling hæfari en annan til að sitja í þessu mikilvæga ráði.