146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:21]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin í þessu máli, ekki síst þakka ég hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem var staðgengill hv. þm. Evu Pandoru Baldursdóttur og svo mín í nefndinni sem tók málið yfir. Fyrir mestan part er álit meiri hluta nefndarinnar afskaplega gott, það nær hugsanlega sumum af þeim markmiðum sem var lagt upp með. En þegar maður spyr um markmiðin í þessu var kannski helsta markmiðið að komið væri á gagnsæi og betri verkferlum í starfsemi kjararáðs. Ástæðan var að hluta til sú að daginn eftir kosningar fengu þingmenn gríðarlega launahækkun og þótti eðlilegt að bregðast við henni, og svo sem ekki eingöngu þeirri hækkun heldur líka öðrum hækkunum kjararáðs áður.

Það er nokkuð ljóst að ef við herðum ekki reglurnar um gagnsæi er ekki hægt að segja að við séum að ná þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Síðari ákvarðanir kjararáðs munu verða svipaðar, það verður ekki skýrt hvernig komist er að þeirri niðurstöðu sem komist er að hverju sinni. Það er frekar slæmt.

Spurning mín er fyrst og fremst hvort við náum markmiðunum með einhverju móti. Það er ekki augljóst að við náum markmiðinu um gagnsæi og betri verkferla í störfum kjararáðs ef við tökum aðeins tillit til umsagnar meiri hluta nefndarinnar, en ef minnihlutaálitið frá hv. þingmanni Pírata, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, er líka tekið til greina og þetta hvort tveggja eigum við miklu betra með að ná markmiðunum. Það er nokkuð ljóst að hvort sem við tölum um hæfniskröfur eða gagnsæi í starfsemi, að það séu hagsmunaskráningar til staðar og fleira í þeim dúr, náum við helst markmiðum okkar með því að taka þær breytingar allar með.