146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugaverð hugmynd að reynt verði að snúa við því ferli að úthýsa framkvæmdarvaldinu úti í bæ en engu að síður stendur í lögunum í dag, ef mig misminnir ekki, orðalagið: og aðrar stjórnsýslunefndir. Í því felst þá væntanlega að þetta sé stjórnsýslunefnd í dag. Það virðist þó vanta upp á einhvern skilning þar að þetta sé stjórnsýslunefnd og falli þar af leiðandi væntanlega undir stjórnsýslulög, upplýsingalög o.fl.

Það er ekki nógu ásættanlegt að svona mikilvæg nefnd sem hefur svo veigamiklu hlutverki að gegna starfi á svo ógagnsæjan hátt. Ef hún fellur ekki undir almenn stjórnsýslulög og undir lög um upplýsingaaðgengi almennings er ákveðið vandamál á ferðinni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Ef nefndin er ekki hluti af framkvæmdarvaldinu, hvar á hún þá heima í stjórnkerfinu? Er hún hluti af löggjafarvaldinu? Er hún hluti af dómsvaldinu? Ef nefndin á að vera dómsvald, er þá ekki rétt að taka upp þá umræðu hvort dómstólar eigi ekki að falla undir gagnsæisviðmið í ríkari mæli en nú er, eins og hafa verið ærin tilefni til að ræða í kjölfar ákveðinna spillingarmála sem komu upp í Hæstarétti nýlega?