146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki séð að nefnd sem hefur það verkefni að úrskurða eftir ákveðnum lögum og ákveðnum reglum sé slík nefnd. Kjararáð er auðvitað miklu líkara venjulegri úrskurðarnefnd eða dómstól eða gerðardómi. Ég held að það sé miklu nær, frekar en að gera það að hluta af framkvæmdarvaldinu út af stjórnarskránni, að þetta sé sjálfstæð nefnd sem um gilda ákveðnar málsmeðferðarreglur. Við getum auðvitað haft þær reglur þannig að það þurfi meiri rökstuðning, eins og er verið að gera núna, og við getum haft þær reglur þannig að það þurfi að birta þetta og hitt, birta fundargerð. Við getum líka sagt það um dómstóla. En alla jafna þegar úrskurðað er um lagaatriði tjá menn sig með úrskurðum sínum og dómum. Ég held því að ekki sé ráð að gera kjararáð að venjulegum hluta framkvæmdarvaldsins. Við getum auðvitað síðar ákveðið að kjararáð skuli gera hitt og þetta og birta þetta og þetta. Það er ekkert vandamál. En við eigum ekki gera það að sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, punktur. Ég held að við séum að skapa meiri vanda en við ætlum að leysa.