146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Brynjar Níelsson hvort hann hyggist eða vilji með þessu áliti sínu gera kjararáð að eins konar munaðarleysingja. Kjararáð er hvorki dómstóll, nefnd né nokkuð annað sem þarf að sæta einhverjum öðrum reglum en þeim mínímalreglum sem við sjáum í málsmeðferð 5. gr. þessa frumvarps sem liggur hér fyrir um að það skuli hugsanlega hafa svolítið samráð við þá hverra launakjör það ákvarðar. Miklu frekari málsmeðferðarreglur er ekki hér að finna. En ég ítreka að ef við værum að ræða um dómstól í eðlilegum skilningi myndu gilda um hann réttarfarsreglur. Þá hefðu þeir sem með málið hafa að gera rétt til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, rétt til að andmæla, rétt til að fá alls konar upplýsingar og rétt til að ræða persónulega, fyrir framan dómstóla, það mál sem þeir hafa til úrlausnar. Það er ekki í boði samkvæmt þessu frumvarpi, herra forseti. Það er heldur ekki í boði að kjararáð vinni sem einhver svartur kassi sem telur sig undanskilinn því að þurfa að svara eðlilegum spurningum almennings, hagsmunasamtaka og okkar þingmanna, sem bíðum enn svara frá kjararáði, um hvaða upplýsingar lágu til grundvallar ákvörðunum þess, hvaða sönnunargögn, ef svo skyldi kalla, liggja fyrir því að sú ákvörðun sem það tók sé rétt ákvörðun. Málsgögn liggja fyrir dómstólum. Hvaða réttarfarsreglur ættu þá að gilda um kjararáð?