146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fullt af munaðarleysingjum úti um allt á Íslandi. Félagsdómur er munaðarleysingi. Það er fullt af úrskurðarnefndum sem eru munaðarleysingjar. Það gilda mismunandi málsmeðferðarreglur um alla þessa munaðarleysingja og hafa alltaf gilt. Það er ekkert að því. Þetta er mjög sérstakt vegna þess að verið er að ákvarða um kjör eins þáttar ríkisvaldsins. Það er ekki eðlilegt að framkvæmdarvaldið, sem er annar þáttur, ákveði hver kjör dómaranna eru. Það er þetta prinsipp sem ég er að tala um. Við skulum ekki flækja þessa umræðu, t.d. hvað varðar málsmeðferðarreglur og annað. Við skoðum það bara sérstaklega hvaða málsmeðferðarreglur og aðrar reglur eigi yfir höfuð að gilda um málsmeðferð fyrir þessum úrskurðaraðila. Við þurfum ekkert að gera þetta að venjulegri stjórnsýslunefnd undir framkvæmdarvaldinu. Það gengur ekki upp að mínu mati. Ég held að nefndin eigi að endurskoða þetta, taka þetta ákvæði út milli 2. og 3. umr. Hafa þetta bara óbreytt hvað þetta varðar og fara svo síðar yfir það nákvæmlega hvaða reglur við viljum hafa. Við erum auðvitað í þessu frumvarpi að bæta mjög upp á gagnsæið, hina raunverulegu gagnrýni sem kjararáðið fékk. Og ég tek alveg undir þá gagnrýni. Það var ekkert augljóst hvernig þetta var fundið. Nú er verið að reyna að koma því í lag. Mér sýnist það gert ágætlega í frumvarpinu. En ég vara við þessu eina. Ég held að það sé alveg lógískt og held að við ættum að taka það til endurskoðunar.